Stjórn Ásmundarsafns harmar stuldinn á styttu Ásmundar Sveinssonar, Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku. Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar safnsins sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að stjórn safnsins fordæmi einnig þá réttlætingu á stuldinum að í verkinu felist rasískur undirtónn.
„Í engum verka Ásmundar, eða í ótal viðtölum sem við hann voru tekin, er neitt að finna sem gæti réttlætt þessa uppákomu. Með stuldinum og þeim ásökunum sem honum fylgja er brotið gegn heiðri látins listamanns undir yfirskini listsköpunar,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Ásmundarsafns.
Fram kemur í Morgunblaðinu að styttan sé eins og stendur í geymslu og að málið sé til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi. Tveir eru með stöðu grunaðra í málinu.
Fjallað hefur verið ítarlega um stuldinn en þær Steinunn Gunnlaugsdóttir og Bryndís Björnsdóttir sem tóku verkið og bjuggu til úr því nýtt verk sögðu í lok síðasta mánaðar í viðtali við Fréttablaðið að ekki væri um þjófnað að ræða og skoruðu á lögreglu að skila verkinu fyrir framan Marshallhúsið þar sem þær höfðu sett nýja verkið upp.