Karlmaður var fyrir helgi dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundins fangelsis fyrir að hafa, að kvöldi föstudagsins 17. maí 2019, á heimili sínu stillt farsíma sínum upp inni á baðherbergi og tekið upp myndskeið af tveimur stúlkum, sem báðar voru ólögráða, þar sem þær voru naktar eða hálfnaktar að skipta um föt.
Með hegðun sinni særði maðurinn blygðunarsemi þeirra og sýndi af sér ósiðlegt athæfi. Það varðar bæði við almenn hegningarlög og barnaverndarlög.
Fram kemur í dómi að maðurinn hafi ekki áður gerst sekur um refsivert brot og að litið sé til greiðlegrar játningar hans og eins til þess hvað honum gekk til með brotinu sem beint var að ungum stúlkum. Refsing var því talin hæfileg þrír mánuðir og fellur hún niður eftir tvö ár haldi hann skilorð.
Foreldrar stúlknanna kröfðust einnar milljónar í skaðabætur fyrir hvora stúlku en dómurinn taldi hæfilegt að þeim yrði báðum dæmdar 300 þúsund krónur í skaðabætur.