Stjórn og starfshópur Stígamóta ákvað nýverið að greiða hundrað þúsund krónur í svokallaðan Málfrelsissjóð. Sjóðurinn er til styrktar Oddnýu Arnarsdóttur og Hildi Lilliendahl sem voru í síðustu viku dæmdar til að greiða tveimur mönnum í tengslum við Hlíðarmálið skaðabætur fyrir ummæli sem þær létu falla árið 2015. „Það er hrópandi óréttlæti þegar konur eru dæmdar fyrir að tala um kynferðisofbeldi en gerendur ofbeldis eru ekki dæmdir fyrir það að beita því“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra Stígamóta.

„Við styðjum alltaf fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi í að segja frá ofbeldinu sem það hefur verið beitt“ ítrekar Steinunn. Hún sammælis því sem sagt var í nýlegri færslu Stígamóta um að það væri brjálæði ef konum væri aðeins leyfilegt að tjá sig um kynferðisofbeldi dæmdra manna.

Furða sig á íslensku réttarkerfi

Steinunn segir Stígamót vilja sjá umbætur í öllu réttarkerfinu eins og það leggur sig. Í færslu sem Stígamót birtu á Facebook síðu sinni á föstudaginn undrast starfsfólk samtakanna sig á réttarkerfinu á Íslandi. Í færslunni er tekið fram að aðeins sjö nauðgunardómar hafi fallið í héraðsdómum landsins á árunum 1997 – 2016, þrátt fyrir að 117 manns hafi leitað árlega til Stígamóta á þessum árum. „Það er undarlegt að réttarkerfi sem gengur afleitlega að úthluta réttlæti í kynferðisbrotamálum, virki svo ágætlega til þess að þagga niður í þeim konum sem um það fjalla,“ er einnig tekið fram í færslunni.

Sjóður fyrir þá sem kærðir eru fyrir að segja frá ofbeldi

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Stígamót aðstoðar við að greiða málskostnað en í samtökunum er starfræktur sérstakur sjóður til að aðstoða konur við að fara í gegnum réttarkerfið. „Hérna á stígamótum er til eitthvað sem heitir Sannleikssjóður, sjóðurinn er gjöf sem kom hingað fyrir nokkrum árum og var sett á laggirnar til þess að styðja þá sem eru kærðir fyrir að segja frá ofbeldi gegn sér“ segir Steinunn.

Steinunn hvetur fólk til að sýna samstöðu og styrkja söfnunina fyrir Málfrelsissjóð. Sjóðurinn var stofnaður síðastliðinn föstudag og þegar hafa safnast 1,7 milljón af þeim 2,8 milljónum sem stefnt er að.

Heildarfærslu Stígamóta má sjá hér: