Að minnsta kosti þrír þingmenn, sem eiga sæti í forsætisnefnd hafa lýst sig vanhæfa til að fjalla um hið svokallaða Klaustursmál í nefndinni, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þetta eru þingmennirnir Þórunn Egilsdóttir, Framsóknarflokki, Guðjón S. Brjánsson, Samfylkingu og Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum. 

Þeir nefndarmenn sem Fréttablaðið náði tali af vildu hvorki segja af eða á en vísuðu öll á Steingrím J., forseta Alþingis. Ekki náðist í Steingrím þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata sem á sæti í nefndinni, staðfesti að von væri á yfirlýsingu frá Steingrími vegna málsins síðar í dag. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því í lok nóvember að nefndin hyggðist taka Klaustursupptökurnar til umfjöllunar. Í nefndinni sitja forseti Alþingis og varaforsetar, auk tveggja áhernarfulltrúa. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að setja almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Nefndin fjallar einnig um þau mál sem forseti leggur fyrir hana eða varaforsetar óska eftir að ræða. 

Samkvæmt heimildum blaðsins sendu þingmenn Miðflokksins, þau Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir nefndinni bréf þar sem meðal annars voru reifuð sum þeirra ummæla sem hluti nefndarmanna hafa látið falla eftir að málið birtist almenningi í fjölmiðlum. Í bréfinu var spurt hvort ekki væri ástæða til að efast um hæfi hluta þeirra þingmanna sem þar sitja.

 Fréttin verður uppfærð.