Breki Logason, samskiptastjóri Orku náttúrunnar, segir fyrirhugaðar framkvæmdir í inntakslóni Andakílsárvirkjunar vera hluta af nauðsynlegum endurbótum.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á þriðjudag kærði Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum í Skorradal þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmdir við Andakílsárvirkjun þyrftu ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða í kærumálinu hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Að sögn Breka á að lagfæra steypt mannvirki, endurgera jarðvegsstíflu og fjarlægja set úr lóninu. Stíflumannvirki séu gömul og framkvæmdirnar nauðsynlegt viðhald svo mannvirkin uppfylli ströngustu nútímakröfur.

„Set hefur safnast upp í inntakslóninu síðustu fimmtíu árin og er lónið smám saman að fyllast. Það hefur áhrif á rekstur virkjunarinnar og styttir líftíma vélbúnaðar. Fjarlægja þarf því set úr lóninu til þess að tryggja öruggan rekstur,“ útskýrir Breki.

Hulda segir landeigendur telja að gefa þurfi út virkjunarleyfi fyrir virkjunina sem reist var á árunum 1945 til 1947. Það segir Breki hafa verið fyrir tíma virkjanaleyfa. Reksturinn sé í samræmi við starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá árinu 2012.

„Framkvæmdirnar fela ekki í sér neinar breytingar á rekstri virkjunarinnar nema að því leyti að gera stíflumannvirki og lón öruggari til framtíðar,“ segir Breki. Um sé að ræða hluta af viðhaldi virkjunarinnar og það hafi ekkert með forsendur virkjanaleyfis að gera. Þá segir hann framkvæmdir í inntakslóninu engin áhrif munu hafa á Skorradalsvatn og vatnshæðina þar.

„Áhrif framkvæmdarinnar á lífríki, náttúru og ásýnd verða tímabundin og að mestu bundin við framkvæmdatíma. Sama á við um truflun vegna hávaða frá vinnuvélum á framkvæmdatíma. Áhrif á landnotkun vegna haugsetningar verða varanleg en verða ekki á stóru svæði, verða valin og mótuð í samráði við landeigendur og teljast því hafa lítil áhrif. Áhrif á vatnafar og vatnalíf verða tímabundin,“ svarar Breki spurður hvers vegna framkvæmdin ætti ekki að fara í umhverfismat.

Breki segir framkvæmdirnar ekki fela í sér neinar breytingar á rekstri virkjunarinnar nema að því leyti að gera stíflumannvirki og lón öruggari til framtíðar.

Aðspurður segir Breki umfang mannvirkjanna eiga eftir að aukast óverulega. „Það þarf að endurgera jarðvegsstíflu og hækka til þess að hún uppfylli nútímakröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja. Jarðvegsstíflan er staðsett þannig í landslaginu að hækkun og endurgerð á henni mun hafa hverfandi áhrif á ásýnd á svæðinu,“ segir hann.

Hulda gagnrýnir að stíflugarðar muni hækka. Breki segir markmiðið ekki að hækka garðana heldur bæta öryggi mannvirkja. Líklegt sé að jarðvegsstífla hækki um 2,5 metra til þess að uppfylla ströngustu nútímakröfur.

„Auk þess verður um eins metra hár veggur reistur í norðurhluta steyptu stíflunnar til þess að varna því að í ofsaflóðum geti flætt yfir stífluvegginn og þannig grafið undan aðrennslispípum virkjunarinnar sem liggja hinum megin við stífluna á þessu svæði. Vatnsborð inntakslóns mun ekki hækka vegna endurgerðarinnar, því yfirfallsstífla verður ekki hækkuð,“ segir hann.

Landeigendur óttast sjónræn áhrif en Breki segir þau ekki verða mikil. Steyptar verði stíflur vatnsmegin í lóninu og set fjarlægt.

„Mannvirkin breytast lítillega í útliti við endurbæturnar og þá helst lögun á jarðvegsstíflunni,“ segir Breki. „Inntakslónið er í hvarfi að mestu leyti, nema þegar komið er að því úr austri og suðaustri. Mannvirki sjást því ekki langt að og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru hafa óverulega áhrif á ásýnd þeirra. Áhrif á lífríki og náttúru eru tímabundin meðan á framkvæmdum stendur og verið er að fjarlægja setið úr lóninu og koma því fyrir.“

Að sögn Breka er áætlað að hefja framkvæmdir vorið 2023 og ljúka þeim að hausti sama árs.