Rússneska sjónvarpsstöðin TVZVEZDA birti í gær myndband af leikaranum Steven Seagal þar sem hann talar máli Rússneskra stjórnvalda og gagnrýnir notkun Úkraínumanna á HIMAR-eldflaugakerfum.

Þetta kemur fram á vef Millitary Times en í myndbandinu er Segal kynntur sem sérstakur fulltrúi utanríkisráðuneytis Rússlands.

Leikarinn hefur áður talað máli Pútíns og er talinn vera dyggur stuðningsmaður forsetans en hann var skipaður sem fulltrúi ráðuneytisins með það að markmiði að bæta samskipti Rússa við Bandaríkjamenn.

Í myndbandinu sést Seagal standa við sprengjubrak hjá Olenivka fangelsinu í Úkraínu en hann segir að hér séu um skýr ummerki um HIMAR loftskeyti sem hafi grandað 50 manns. "Ef þú horfir á brunann og önnur sérstök atriði þá sérðu að það var ekki sprengja sem gerði þetta. Hér komu HIMAR loftskeyti við sögu," segir Seagal í myndbandinu.

Kenna hvor öðrum um árásina

Áður hefur verið fjallað um sprengjuárásina sem gerðist þann 29. júlí en bæði lönd hafa kennt hvor öðru um árásina. Seagal tekur málstað Rússa og segir að HIMAR eldflaugakerfi sem Úkraínumenn hafi fengið frá Bandaríkjunum hafi grandað fangelsinu.

Einnig viðhefur Seagal samsæriskenningar um að í fangelsinu hafi leynst nasisti sem Zelenskij, forseti Úkraínu hafi viljað koma fyrir kattarnef.

Ekki liggur ljóst fyrir hvernig fangelsinu var grandað en samkvæmt umfjöllun Washington Post um málið þykir það mjög ólíklegt að HIMAR eldflaugakerfi hafi komið að voðaverkinu.

Leyniþjónusta Úkraínu segist hafa fjarskiptagögn um ábyrgð Rússa og heldur því fram að um hryðjuverk sé að ræða. Sprengjuárásin sé aðferð til að breiða yfir bæði pyndingar og morð á úkraínskum stríðsföngum.