Matvælastofnun hefur sett bráðabirgarbann á allan flutning sauð- og geitfjár innan Tröllaskagahólfs þar sem sterkur grunur um riðuveiki í Akrahreppi í Skagafirði. Að því er kemur fram í tilkynningu frá MAST er verið að staðfesta greininguna.

„Bóndinn [á Stóru-Ökrum 1] hafði samband við starfandi dýralækni sem tilkynnti héraðsdýralækni um kind með einkenni riðuveiki. Héraðsdýralæknir skoðaði kindina sem síðan var aflífuð, sýni tekin og send til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum,“ segir í tilkynningunni.

Héraðsdýralæknir vinnur að undirbúningi aðgerða meðan beðið er eftir staðfestingu auk þess sem að hann mun sinna öflun faraldsfræðilegra upplýsinga. Matvælastofnun mun upplýsa um staðfestingu greiningarinnar um leið og hún liggur fyrir.

Ekki greinst á svæðinu í tuttugu ár

Að því er kemur fram á heimasíðu MAST er riðuveiki langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé en hann veldur hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Oftast eru kindur sem hafa smitast veikar í mánuð áður en þær deyja og sjaldnast lengur en eitt ár.

Sjúkdómurinn virðist lifa lengi í umhverfinu og eru dæmi um að smit geti komið upp á sama bæ oftar en einu sinni. 

Samkvæmt MAST hefur riða ekki greinst á svæðinu síðan árið 2000 en á búinu eru um 500 fullorðið fé og 300 lömb. Bráðabirgðaniðurstöður sýnatökunnar benda sterklega til þess að um riðuveiki sé að ræða en staðfesting mun liggja fyrir eftir helgi.