Lína Sigurlína Rúllugardían Nýlendína Krúsimunda Eframísdóttir Langsokkur, betur þekkt sem Lína Langsokkur, er ein ástsælasta barnabókapersóna fyrr og síðar. Hún er aðalpersóna í bókaflokki sænska rithöfundarins Astrid Lindgren. Í dag eru 77 ár síðan fyrsta bókin um Línu kom út.

Lína Langsokkur er níu ára gömul og í upphafi sögunnar flytur hún í húsið Sjónarhól. Þar býr hún með hestinum sínum og apanum Herra Níels. Fljótlega eftir að Lína flytur á Sjónarhól kynnist hún krökkunum Önnu og Tomma sem búa í húsinu við hliðina á.

Lína er með rautt hár og freknur, hún er fjörug, klár, óútreiknanleg og sterk, svo sterk að hún getur lyft hestinum sínum. Móðir Línu lést stuttu eftir að hún fæddist og pabbi hennar er skipstjóri sem siglir um heimsins höf svo Lína býr án fullorðinna á Sjónarhóli. Hún á tösku fulla af gullpeningum og sér um sig sjálf, yfirvöld í þorpinu þar sem hún býr reyna að færa líf Línu í annan farveg en hún er hamingjusöm og lætur ekki segjast.

Astrid Lindgren.
Fréttablaðið/Getty

Sagði dóttur sinni sögur

Astrid Lindgren fæddist í Svíþjóð þann 14. nóvember árið 1907 og hún lést þann 28. janúar árið 2002. Hún skrifaði fjölda barnabóka og meðal þekktustu bóka hennar eru sögurnar af Línu, Emil í Kattholti, Ronju Ræningjadóttur og börnunum í Ólátagarði.

Árið 1941 hóf Astrid að segja Karin, dóttur sinni, sögur af stúlku sem lenti í ýmsum ævintýrum, en það var Karin sem hóf að kalla uppátækjasömu stelpuna sem mamma hennar sagði henni frá Línu Langsokk. Sögurnar urðu fastur punktur í heimilislífinu hjá Astrid og Karin og síðar fengu fleiri fjölskyldumeðlimir að heyra þær líka. Árið 1944 ákvað Astrid svo að skrifa sögurnar niður, úr varð að hún handskrifaði tvö eintök af sögunni um Línu, eitt handa Karin og annað fór hún með til útgefanda.

Honum leist ekki vel á söguna og hafnaði því að gefa hana út, Astrid fór til annars útgefanda í maí árið 1945. Honum leist betur á en þeim fyrri og bað Astrid að gera smávægilegar breytingar á sögunni sem hún og gerði. Þann 26. nóvember sama ár kom svo út fyrsta sagan um Línu Langsokk. Í kjölfarið komu út tvær bækur til viðbótar um líf Línu, ein árið 1946 og önnur árið 1948. Þrjár myndskreyttar bækur komu svo út árin 1950, 1971 og sú síðasta árið 2001.

Fljótlega eftir að fyrsta bókin um Línu kom út í Svíþjóð varð hún afar vinsæl og hlaut bókin almennt góða dóma og seldist vel. Sett var upp barnaleikrit um Línu í Stokkhólmi og árið 1948 var fyrsta Línu-bókin gefin út á íslensku. Bækurnar voru þýddar á fjölmörg tungumál en ekki voru allir sammála um ágæti þeirra. Sumir gengu jafnvel svo langt að segja að bækurnar um Línu væru skaðlegar börnum og á sumum tungumálum voru sögurnar ritskoðaðar.

Í franskri ritskoðaðri útgáfu birtist Lína sem fínleg ung kona í stað sterku sjálfstæðu stelpunnar og hestinum hennar var breytt í smáhest þar sem ótrúverðugt þótti að lítil stelpa gæti lyft hesti. Við þessa breytingu krafði Astrid Lindgren útgefandann um mynd af raunverulegri franskri stúlku að lyfta smáhesti, þá stúlku sagði hún eiga tryggan feril í kraftlyftingum fram undan. Árið 1995 var Lína Langsokkur fyrst gefin út óritskoðuð í Frakklandi.

Rithöfundurinn og skapari Línu Langsokks, Asrid Lindgren, ásamt leikkonunni Inger Nilsson sem lék Línu og leikstjóranum Olle Hellblom árið 1969.
Fréttablaðið/Getty

Áhrifaríkt að leika Línu

Lína Langsokkur hefur heillað heimsbyggðina með persónutöfrunum sem Astrid Lindgren skapaði henni. Gerðar hafa verið kvikmyndir og sjónvarpsþættir um Línu, Tomma og Önnu. Vinsælastar urðu myndirnar og þættirnir sem komu út á árunum 1969 og 1970 þar sem Inger Nilsson fór með hlutverk Línu.

Hér á Íslandi hafa verið settar upp fjölmargar leiksýningar um Línu, Ilmur Kristjánsdóttir lék hana til að mynda á stóra sviði Borgarleikhússins árið 2003. Hún segir hlutverkið hafa haft mikil áhrif á sig. „Þetta var fyrsta hlutverkið sem ég fékk eftir að ég útskrifaðist svo þetta var frekar þægilegt stökk fyrir mig út í leikhúsið en á sama tíma fékk ég svona hugrakkan karakter í hendurnar og það hefur fylgt mér,“ segir Ilmur.

:Ilmur Kristjánsdóttir lék Línu í Borgarleikhúsinu árið 2003. Hún segir hlutverkið hafa haft mikil áhrif á sig.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Að ögra, fara út fyrir boxið og láta ekki segja sér hvað á að gera er allt einkennandi fyrir Línu og það tók ég allt til mín,“ segir Ilmur, sem lék Línu í um hundrað sýningum í leikhúsinu.

„Svo fórum við í leikskóla og alls konar staði um allan bæ og það var æðislegt, það dá allir og dýrka Línu,“ segir Ilmur. „Það er svo gaman að hún hvetur krakka til að vera frjáls en svo gerist það líka hjá börnum að þau fara að stoppa hana ef hún fer yfir strikið, þá leiðrétta þau hana og segja bara: nei, þetta má ekki,“ segir Ilmur.

„Og þessa sálfræði hef ég notað á mín eigin börn,“ segir hún og hlær. „Þau eru rosalega stundvís, ég segi við þau æi, viltu ekki sofa aðeins lengur og þau bara nei, ég ætla auðvitað að mæta á réttum tíma,“ bætir hún hlæjandi við.