„Fyrstu sjúklingarnir með byrjandi mergæxli hafa nú lokið tveggja ára lyfjameðferð og sýna gríðarlega góða svörun,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Landspítala.

Byrjað er að nota tvö ný líftæknilyf ásamt sterum í tilraunaskyni hér á landi þegar forstigseinkenni af mergæxli greinast, eða svokölluð „mallandi mergæxli“. Sterkar vísbendingar eru um að ef sjúkdómurinn greinist á forstigi megi í fyrsta skipti lækna hann með þessari lyfjablöndu.

„Við höfum ekki séð svona góða svörun við meðferð mergæxlis áður,“ segir Sigurður Yngvi.

Oft verður einkenna sjúkdómsins ekki vart fyrr en hann er kominn á alvarlegt stig. En fyrir fimm árum var ákveðið að fara í að skima alla Íslendinga, 40 ára og eldri, fyrir forstigi mergæxlis, sem var einstæð vísindarannsókn í heiminum. Merg­æxli er krabbamein sem verður til í fljótandi merg í beinum, þegar þær frumur sem þar eru breytast í krabbameinsfrumur. Hægt er að mæla hvort þessar krabbafrumur eru til staðar með því að leita að ákveðnu próteini í blóðinu með einföldu blóðprófi.

Fyrir fimm árum hófu Sigurður Yngvi og teymi hans vinnu við rannsóknina. Rúmlega 80 þúsund Íslendingar tóku þátt. Sigurður Yngvi kom að máli við tvö stór erlend lyfjafyrirtæki og sagt þeim frá því að til stæði að skima heila þjóð til að sjá hvort ávinningur væri af því að ráðast gegn sjúkdóminum á forstigi. Lyfjafyrirtækin voru reiðubúin til að taka þátt og hafi þegar lagt til verkefnisins líftæknilyf að andvirði 2,5 milljarða íslenskra króna.

„Vísindarannsóknin gengur út á að meðhöndla sjúkdóminn snemma, en það er einmitt svona sem framþróunin verður í krabbameinslækningum,“ segir Sigurður Yngvi.

Líftæknilyfin sem notuð eru auk stera, heita Lenalidomid og Carsil­zomib.

Skimunarrannsóknirnar sýna að um 5 prósent Íslendinga 40 ára og eldri eru með forstig mergæxlis, en ekki nærri því allir fá krabbamein að sögn Sigurðar Yngva. „Þess vegna viljum ekki meðhöndla alla, heldur aðeins þá sem eru með svokallað mallandi mergæxli, það er að segja þegar forstigið er lengra gengið.“

Þessi íslenska rannsókn á heilli þjóð vakti mikla athygli á árlegri ráðstefnu bandarískra blóðlækninga, sem haldin var í Atlanta í Bandaríkjunum helgina 10. til 14. desember síðastliðinn. „Það má segja að íslenska rannsóknin hafi verið á allra vörum,“ segir Sigurður Yngvi.