Ný skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) um meðferðarheimili í Varpholti og Laugalandi sýnir að það hafi verið sterkar vísbendingar um að hópurinn sem dvaldi þar hafi verið beittur andlegu ofbeldi með kerfisbundnum hætti. Þá kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti fyrrum vistbarna sem talað var við gerð skýrslunnar upplifðu andlegt ofbeldi við dvölina í Varpholti og á Laugalandi, sem lýsti sér í óttastjórn, harðræði og niðurbroti.

„Sterkar vísbendingar eru um að alvarlegu andlegu ofbeldi hafi verið beitt með kerfisbundnum hætti. Frásagnir eru frá um helmingi fyrrum vistbarna, sem viðtöl voru tekin við, af líkamlegu ofbeldi og áreitni og önnur börn urðu vitni að slíku,“ kemur fram í tilkynningu um skýrsluna sem alls er alls um 237 blaðsíður og er að finna á vef stofnunnarinnar.

Þar er einnig að finna fimm blaðsíðna ítarefni með samantekt á megin innihaldi greinargerðarinnar og helstu niðurstöðum nefndarinnar.

Eftirlitsskylda barnaverndaryfirvalda brást

Aðrar niðurstöður sem taldar eru upp í tilkynningunni eru að hópurinn sem kom til dvalar á meðferðarheimilinu að Varpholti/Laugalandi á árunum 1997-2007 hafði ólíkan bakgrunn og að vandi barnanna var oft og tíðum fjölþættur og þarfirnar flóknar. Þá kemur fram að sálfræðiþjónustu hafi verið ábótavant og að ekki hafi verið brugðist við með fullnægjandi hætti við ákalli um að hún yrði aukin.

Þá kemur fram að eftirlitsskylda barnaverndaryfirvalda brást að því leyti að þau hefðu átt að bregðast við ákalli um aukna geðheilbrigðisþjónustu, hefðu átt að skerast í leikinn þegar ljóst var hve mikið álag hvíldi á starfsfólki meðferðarheimilisins og að skoðun á dagbókum og fundargerðarbókum hefði átt að vekja grunsemdir um neikvæð viðhorf í garð vistbarna og gefa tilefni til að kanna hvort þau endurspegluðust í framkomu við þau.

Fram kemur í tilkynningunni að öllum hluteigandi hefur verið boðið að óska eftir að fá kynningu á skýrslunni og umræður um niðurstöður í minni hópum hjá GEV.

Stjórnvöld munu svo bjóða upp á sérstakan stuðning fyrir fyrrum vistbörn í kjölfar útgáfu skýrslunnar, sem felst í að hægt er að leita til Bjarkarhlíðar í s. 553-3000. Þetta hefur þegar verið kynnt í tölvupósti eða með skilaboðum til þeirra aðila sem við höfum upplýsingar um.

Hægt er að kynna sér greinargerðina hér.