Stephen Breyer, dómari í hæstarétt Bandaríkjanna lætur af störfum í dag. Þetta tilkynnti hann í gær en með þessu lýkur hann 28 ára starfi. Breyer hefur starfað sem hæstaréttardómari síðan 1994 en hann var skipaður í embættið af Bill Clinton, Bandaríkjaforseta.

Breyer hefur ávallt verið talinn partur af frjálslyndari væng réttarins en einungis þrír dómarar skipaðir af demókrötum sitja í hæstarétti Bandaríkjanna núna. Hinir níu dómarar réttarins voru skipaðir af repúblikönum.

Fjölgun dómara sem aðhyllast íhaldssamari skoðanir er talinn stór þáttur í því að nýlega felldi rétturinn stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til fóstureyðingar í Bandaríkjunum úr gildi. Dómurinn hefur verið mjög umdeildur og hafa margir meðlimir réttarins fengið morðhótanir í kjölfar hans.

Ketanji Brown Jackson mun taka við af Stephen Breyer
Mynd/getty

Breyer ásamt tveimur öðrum frjálslyndum meðlimum réttarins var á móti dóminum og kom fram í áliti þeirra að dómurinn „felldi úr gildi 50 ára gamlan stjórnarskrárvarinn rétt sem verndaði frelsi og jafnrétti kvenna“.

Breyer hefur verið undir mikilli pressu frá demókrötum að láta af embætti sínu en hann er orðinn 83 ára gamall. Demókratar óttuðust að hefði Breyer ekki sagt af sér ættu þeir á hættu að missa sætið til Repúblikana ef næsti forseti Bandaríkjanna kæmi úr þeirra röðum.

Ketanji Brown Jackson sem skipuð var sem dómari í Apríl á þessu ári mun taka við af Breyer á næstu dögum.