Birkir Kristján Guðmundsson segir að honum hafi verið meinað að starfa við kvöldinnlit til eldri borgara í félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar vegna þess að hann vill ekki fara í bólusetningu við Covid-19.

„Ég er búinn að vera að vinna í tómstundastarfinu í sumar og var fenginn í félagsþjónustuna vegna þess að þau vildu ekki missa mig og sáu hvað ég var góður með fólkinu. Ég vann í einn dag og átti að fara að vinna um kvöldið þegar ég fékk símtal um að það væri ekki hægt að hafa mig í vinnu,“ segir Birkir.

Hann var ekki búinn að skrifa undir ráðningar­samning.

Birkir Kristján hefur sterkar skoðanir á bólusetningum og langar hann alls ekki að láta bólusetja sig. „Ég hef rætt mínar skoðanir á kaffistofunni, eins og á öllum vinnustöðum. Það eru fleiri sem eru óbólusettir en það er ekki hægt að reka þá,“ segir hann. „Það er verið að mismuna mér fyrir að vilja ekki fara í þessa meðferð.“

Birkir myndi ekki vilja láta bólusetja sig til að fá vinnuna. „Ég hef ekki áhuga á að taka þátt í þessari tilraun. Mér finnst vera brotið á mannréttindum mínum með þessu.“

Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs bæjarins, segir að engir ráðningarsamningar hafi verið gerðir og engum í heimaþjónustu hafi verið sagt upp að undanförnu. „Okkur er ljóst að við getum ekki skikkað starfsfólk í bólusetningu, en eins og staðan er í dag stendur það ekki til af okkar hálfu að senda óbólusett starfsfólk inn á heimili fólks,“ segir Baldur.

„Þarna er um viðkvæman hóp að ræða, sem við höfum lagt áherslu á að vernda. Mikil áhersla hefur verið lögð á að bólusetja starfsfólk sem sinnir þessari þjónustu og var það sett í forgang á sínum tíma. Við teljum því að það myndi skjóta skökku við að setja óbólusetta í þetta hlutverk.“