Alma Möller land­læknir segir ekki standa til að mót­efna­mæla fólk sérstaklega áður en bólu­setning fer fram þrátt fyrir að um fáa skammta af bólu­efninu sé að ræða í fyrstu sendingu. Fjöldi fólks reyndist vera með mót­efni eftir fyrstu bylgju far­aldursins án þess að vitað væri til að þau hafi smitast.

„Núna höfum við auð­vitað verið mjög dug­leg að taka sýni en það eru auð­vitað ein­hverjar líkur á því að ein­hverjir sem við vitum ekki um hafi fengið veiruna,“ sagði Alma að­spurð um málið þegar fyrstu ein­staklingarnir voru bólu­settir í morgun.

Algengustu aukaverkanirnar vægar

Að­spurð um of­næmis­við­brögð sem geta komið fram eftir bólu­setningu sagði Alma að þau væru sjald­gæf en gætu verið al­var­leg. Mælst sé til að fólk haldi kyrru í um hálf­tíma og hafi varann á sér eftir bólu­setningu en of­næmis­við­brögð geta verið með margs konar hætti. Lang al­gengustu auka­verkanirnar væru þó mjög vægar.

„Þó svo að þróun bólu­efnisins hafi verið mjög hröð hefur enginn af­sláttur verði gefinn á öryggi eða virkni og bólu­efnið hefur verið prófað á tug­þúsundum manna,“ sagði Alma en bólu­efnið hefur hlotið skil­yrt markaðs­leyfi hér á landi „Það er mat okkar allra hér að á­vinningurinn er miklu miklu meiri en á­hættan.“

Lokaspretturinn hafinn

Alma segir mikil­vægt að fólk haldi á­fram að halda uppi ýtrustu sótt­vörnum, jafn­vel eftir bólu­setningu þar sem hægt er að bera veiruna á milli á höndunum, en þegar flestir hafa verið bólu­settir verði hægt að slaka veru­lega á. Hún sagði það vera ein­stakt tæki­færi að lands­menn væru komin á þann stað að geta fengið bólu­setningu.

„Seigla bæði heil­brigðis­starfs­manna og lands­manna allra hefur skilað góðum árangri og nú er loka­spretturinn eftir og það er á­fram seigla, skilningur, yfir­vegun, og já­kvæðni sem mun fleyta okkur yfir enda­markið,“ sagði Alma að lokum.

Allt að sex þúsund manns bólusettir á næstu dögum

Fyrstu skammtarnir af bólu­efni Pfizer og BioN­Tech voru líkt og áður segir gefnir í dag en fjórir starfs­menn Land­spítala voru bólu­settir í beinni út­sendingu í morgun. Um er að ræða um það bil 10 til 12 þúsund skammta í fyrstu sendingu sem dugar þá fyrir 5 til 6 þúsund ein­stak­linga. Bólu­setningin fór fram tíu mánuðum og einum degi eftir að smit greindist fyrst hér á landi.

„Ég segi bara gleði­lega há­tíð,“ sagði Alma Möller land­læknir þegar fyrstu ein­staklingarnir voru bólu­settir en á næstu dögum verða fram­línu­starfs­menn í heil­brigðis­þjónustu bólu­settir fyrir veirunni. Starfs­menn sem eru í mestri á­hættu á að verða fyrir smiti, til að mynda starfs­menn á gjör­gæslu­deildum og bráða­mót­töku, verða í sér­stökum for­gangi.

Þá verða heimilis­menn á hjúkrunar-og dvalar­heimilum, sem og á öldrunar­deildum sjúkra­húsa, í for­gangi en íbúi á hjúkrunar­heimilinu Selja­hlíð var bólu­settur klukkan 10. Heilsu­gæsla höfuð­borgar­svæðisins mun sjá um bólu­setningarnar en einnig verða ein­staklingar á lands­byggðinni bólu­settir á næstu dögum.

„Ég vil nota þetta tæki­færi og þakka heil­brigðis­starfs­fólki fyrir þeirra fram­úr­skarandi og ó­eigin­gjörnu störf og það var sko ekki sjálf­sagt að standa í stafni í upp­hafi far­aldursins þegar við vissum lítið hvað við værum að fara út í,“ sagði Alma áður en fyrstu ein­staklingarnir voru bólu­settir.

Kristina Elizondo, sjúkra­liði á gjör­gæslu­deild, Kristín Ingi­björg Gunnars­dóttir, hjúkrunar­fræðingur á gjör­gæslu­deild, Elías Ey­þórs­son, sér­fræði­læknir í lyf­lækningum, og Telma Guð­rún Jóns­dóttir, að­stoðar­maður á bráða­mót­töku, voru þau fyrstu sem voru bólu­sett en hjúkrunar­fræðingarnir Arna Kristín Guð­munds­dóttir og Ey­rún Ósk Guð­jóns­dóttir sáu um að gefa bólu­efnið.