Á þriðja tug eru látnir af völdum kórónaveirunnar sem geisar nú í borginni Wuhan í Kína. Hátt í sjö hundruð manns hafa smitast. Ferðir til og frá Wuhan, sem og nágrannaborginni Huanggang, eru nú bannaðar, samanlagt búa þar um 18 milljónir manna. Þá hefur öllum skrautsýningum og meiri háttar hátíðarhöldum í tilefni kínversku áramótanna um næstu helgi verið aflýst í höfuðborginni Peking.

Eftir að veirunnar varð fyrst vart sendu kínversk yfirvöld viðvörun til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Bönd hafa borist að markaði með afurðir villtra dýra.

Stemningin í Wuhan er eftir atvikum. Viðmælandi BBC í borginni lýsti andrúmsloftinu „líkt og um heimsendi væri að ræða“. Hillur stórmarkaða séu nánast tómar og þeir sem eru utandyra hafi grímu fyrir vitum.

Síðustu daga hafa tilfelli verið staðfest í Sjanghæ, Shenzhen og Peking. Búið er að staðfesta eitt tilfelli í Bandaríkjunum. Grunur er um að veiran hafi borist til annarra landa, þar á meðal Taílands og Skotlands. Allir sem hafa látist voru með undirliggjandi sjúkdóma.

Enginn grunur er um að veiran hafi borist til Íslands, en sóttvarnalæknir fylgist vel með stöðunni. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur gefið út ráðleggingar vegna ferðalaga Íslendinga til útlanda, sérstaklega til Kína. Bent er á að gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti. Forðast skuli náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni.

Þá er ráðlagt að forðast náið samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum. Nota skuli klút fyrir vitin við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega. Þá eru þeir sem leita á spítala eða heilsugæslu hérlendis beðnir um að láta heilbrigðisstarfsmenn vita hafi þeir verið í Kína nýlega.

Ekki er þó ástæða til að takmarka ferðalög til og frá Kína.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins telur líklegt að veiran geti borist til Evrópu, sérstaklega til landa sem eru með beinar flugsamgöngur til Wuhan.

Veiran virðist ekki valda jafn skæðum sjúkdómi og HABL-veiran gerði snemma á öldinni en þá létust um 10 prósent þeirra sem sýktust.