Tuttugu ár er liðin frá því að glaðbeittur hópur kom saman á barnum Grandrokk í Reykjavík og stofnaði skákfélag. Aðallega til þess að láta gamlan brandara af barnum rætast, senda lið til keppni í 4. deild, bruna upp í efstu deild og hampa Íslandsmeistaratitlinum.

Þau áform gengu eftir og eftir að hafa orðið Íslandsmeistari 2002, 2003 og 2004 var ákveðið að setja allan kraft í að efla barnastarf félagsins, útbreiða fagnaðarerindið að skák sé skemmtileg og sinna hinum ýmsu góðgerðarmálum.

,,Þetta er orðin löng og ævintýraleg vegferð, sem hefur borið okkur víðar, en nokkurn óraði fyrir þegar við stofnuðum Hrókinn í bríaríi hér um árið,“ segir Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, í samtali við Fréttablaðið.

„Öll sveitarfélög á Íslandi, ótal staðir á Grænlandi, þúsundir heimsókna í skóla, fangelsi, elliheimili. Það er varla til sá staður þar sem Hróksliðar hafa ekki drepið niður fæti, til að boða fagnaðarerindi skáklistar, vináttu og gleði,“ segir Hrafn.

Stórskotalið á afmælisskákmóti

Hróksliðar fagna þessum tímamótum með ýmsu móti þessa dagana, bæði hér heima og á Grænlandi. Einn hæst ber afmælismót félagsins sem verður haldið í ráðhúsinu um helgina. Þangað mæta til leiks margir af bestu skákmönnum landsins á öllum aldri þar á meðal margar bestu skákkonur landsins; Lenka Ptacnikova, Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir svo nokkrar séu nefndar og sú yngsta, hin ellefu ára Batel Goitom Haile, sem þykir ein efnilegasta skákstúlka Íslands.

Heiðursgestur mótsins er svo skákdrottning Hróksins, stórmeistarinn Regina Pokorna frá Slóvakíu, sem snýr aftur eftir langt hlé. Hún var einn öflugasti liðsmaður Hróksins og tefldi með hinum sigursælu sveitum félagsins á uppgangsárunum upp úr aldamótum.

,,Okkur Róbert og öðrum Hróksliðum er efst í huga þakklæti á þessum tímamótum, til allra þeirra þúsunda sem hafa tekið þátt í viðburðum okkar og hátíðum, og stutt starf okkar í gegnum öll þessi ár. Ég vona að sem flestir komi um næstu helgi og samgleðjist okkur í Ráðhúsinu,“ segir Hrafn en hann og Róbert Lagerman, varaforseti, hafa verið prímusmótorar félagsins frá upphafi.

Heiðursgesturinn Regina Pokorna eyddi drjúgum tíma á Íslandi 2003, þá aðeins 21 árs gamall stórmeistari. Hún keppti fyrir félagið, tók þátt í starfi Hróksins á Grænlandi og var í fremstu víglínu barnastarfsins hér heima og kenndi áhugasömum krökkum skák, ekki síst stelpum, með góðum árangri.

Gaman að áhuganum hjá stelpunum

„Það er til dæmis mjög ánægjulegt að segja frá því að ég hef hitt nokkrar stelpur sem gætu náð langt en það er gaman að sjá hversu áhugasamar stelpurnar eru,“ sagði Regína í viðtali við Fréttablaðið í desember 2003.

„Heima í Slóvakíu eru frekar fáar stelpur í skákinni og það er algengt að þegar ég keppi á stórum mótum þar þá eru yfirleitt um 50 stelpur að keppa innan um 500 stráka. Það er mjög gaman að sjá hversu mikill skákáhuginn er hérna. Hann er þokkalegur heima en aðalíþróttirnar eru fótbolti og íshokkí og annað fellur í skuggann.“

Regina gaf sér einnig tíma til þess að skemmta sér og njóta þess að vera á Íslandi og sagði meðal annars frá úttekt sinni á næturlífi Reykjavíkur í viðtalinu við Fréttablaðið.

„Ég er búin skemmta mér alveg rosalega vel. Vinir mínir hafa komið hingað og verið með mér og þetta er búið að vera æðislegt,“ sagði hún á sínum tíma og bætti við að það væri mjög gaman að dansa og skemmta sér í Reykjavík.

„Staðirnir eru fínir og tónlistin er mjög góð. Slóvakar þykja drekka mjög mikið en jafnast samt ekkert á við Íslendinga. Ég held að það sé ekki hægt að segja annað en Íslendingar drekki alltof mikið.“

Friðrik Ólafsson elsti stórmeistarinn

Stórmeistararnir Friðrik Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson, Helgi Ólafsson, Helgi Á. Grétarsson, Bragi Þorfinnsson og Þröstur Þórhallsson keppa einnig á mótinu en Friðrik, gosögn í lifenda lífi, er aldursforseti mótsins.

Afmælismótið hefst með setningarathöfn í Ráðhúsinu föstudaginn 14. september klukkan 17. Dóra Björt Guðjónsdóttir forseti borgarstjórnar flytur setningarávarp, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leikur fyrsta leikinn.

Þá mun hópur grænlenskra barna syngja við setningarathöfnina. Verðlaunafé á mótinu nemur 3000 evrum, en að auki er fjöldi sérverðlauna í hinum ýmsu flokkum. Að lokinni setningarathöfn taka við fjórar umferðir, og eru tefldar atskákir með 20 mínútna umhugsunartíma. Mótið heldur síðan áfram á laugardag klukkan 13.

Skáklandnámið á Grænlandi

Árið 2004 ákváðu Hróksliðar að einbeita sér alfarið að útbreiðslu skáklistarinnar á Íslandi og Grænlandi, og fóru næstu árin í þúsundir skólaheimsókna um allt land, og dreifðu skákbókinni Skák og mát til fimm árganga þriðju bekkinga, alls 25.000 eintökum.

Skáklandnámið á Grænlandi hófst 2003 og sama ár hófust vikulegar heimsóknir Hróksliða í Hringinn, og umfangsmikið starf meðal fólks með geðraskanir. Hróksmenn stóðu að stofnun Vinaskákfélagsins í Vin, fræðslu- og batasetri Rauða krossins í Reykjavík, sem síðan hefur blómstrað og dafnað.

Á þessum tuttugu árum hefur Hrókurinn heimsótt öll sveitarfélög á Íslandi og staðið fyrir ótal viðburðum, jafnt í skólum, athvörfum, fangelsum, sjúkrahúsum, dvalarheimilinum aldraðra og víðar, undir kjörorðum félagsins: Við erum ein fjölskylda.

Miðvikudaginn 12. september, þegar rétt 20 ár voru liðin frá stofnun Hróksins, hófst hátíð í Kullorsuaq, á norðvesturströnd Grænlands. Kullorsuaq er 450 manna bær, sem fagnar 90 ára afmæli á þessu ári. Með í för eru sirkuslistamenn og skákkennari, auk þess sem efnt verður til listsmiðju fyrir börnin í bænum. Kullorsuaq er á 74. breiddargráðu og hafa Hróksmenn aldrei farið norðar að boða fagnaðarerindi skáklistar, samvinnu og vináttu.