Það stefnir í heitasta dag í sögu Bret­lands í dag, en það er spáð að hitinn fari upp í fjöru­tíu gráður celsíus. Yfir­völd hafa hvatt fólk til þess að halda sig heima, margir skólar eru lokaðir og lestir hættar að ganga.

Stelpurnar okkar keppa í dag í Rot­her­ham gegn feyki sterku liði Frakk­lands, en þá má segja að þær séu með ör­lögin í sínum höndum í ofsa­hitanum í dag.

Sænska ríkisútvarpið fjallar um leikinn, en þar er bent á að örlög íslenska liðsins sé í þeirra eigin höndum. Sigri þær Frakka komast þær í sex­tán liða úr­slit, sama hvað, en jafntefli eða tap þýðir að við þurfum að treysta á úr­slit í leik Ítala og Belga sem fer fram á sama tíma.

Búast við fjörtíu gráðum

Mikil hita­bylgja gengur yfir Evrópu, en skógar­eldar loga í Portúgal, Spáni og Frakk­landi. Frönsk stjórn­völd hafa til að mynda fyrir­skipað um sex­tán þúsund manns að yfir­gefa heimili sín vegna skógar­elda í suður­hluta landsins.

Í Bret­landi hafa hlutar Eng­lands verið settir á hættu­stig vegna hita, en eins og fyrr segir er búist við að hitinn fari upp í fjöru­tíu gráður í dag.

Stelpurnar okkar munu þ
Fréttablaðið/Ernir

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem hættu­stig vegna hita hefur verið sett, en nú­verandi hita­met í Eng­landi var árið 2019 þegar hitinn náði 38,7 stigum í Cam­brid­ge.

Fólk er þá hvatt til þess að ferðast sem minnst og halda sig heima, en hluti af lestar­kerfinu verður ekki starf­tækur í dag vegna hitans. Breska ríkis­stjórnin bað þá skóla um að halda sér opnum, en flestir skólar loka fyrr en venju­lega eða eru lokaðir í dag.

Þá hefur al­menningur verið varaður við því að synda í ám og vötnum, en lík þrettán ára drengs var ný­verið fundið í Norð­vestur-Eng­landi.

„Næstu 48 klukku­stundir verða erfiðar,“ sagði Breski ráð­herrann Kit Malt­hou­se, en neyðar­við­bragðs­nefnd ríkisins mun koma saman í dag til þess að á­kveða næstu skref.