Steinunn Valdís Óskarsdóttir, starfandi skrifstofustjóri skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu og fyrrverandi borgarstjóri hefur verið skipuð formaður aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði.
Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að hópurinn hafi verið skipaður í september í kjölfar skýrslu sem starfshópur um endurmat kvennastarfa skilaði af sér.
Verkefni hins nýja aðgerðahóps er að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum.
Í hópnum eiga einnig sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Bára Hildur Jóhannsdóttir sérfræðingur hefur verið ráðin sem starfsmaður hópsins.