„Mál Atla Rafns er harm­leikur fyrir alla máls­aðila og kannski ekki síst fyrir þá aðila sem undan honum kvörtuðu,“ segir Steinunn Ó­lína Þorsteinsdóttir meðal annars í svar­grein sem hún sendi í kjölfar yfir­lýsingar tæp­lega hundrað kvenna sem sökuðu Steinunni um skað­lega orð­ræðu um kyn­ferðis­brot. Steinunn telur konurnar vera á villi­götum og tekur fram að hefnd sé skammur vermir.

Steinunn telur yfir­lýsinguna vera í anda nýrra mann­réttinda sem standist engar kröfur. „Sam­kvæmt þeim réttindum hafa konur öðlast svig­rúm utan ‘leik­reglna’ sam­fé­lagsins en karl­menn tapað rétti sínum til að bera hönd yfir höfuð sér – í það minnsta á meðan á byltingunni stendur,“ segir Steinunn í pistli sínum.

Sam­fé­lagið til and­skotans

Í ný­legum pistli fagnaði Steinunn ný­föllnum dómi í máli Atla Rafns Sigurðs­sonar sem hún taldi hafa orðið fyrir mann­fjand­sam­legum við­horfum. Að mati kvennanna lýsti greinin því við­horfi að frá­­sagnir af kyn­­ferðis­of­beldi væru mark­­lausar nema að sak­­borningur hefði hlotið dóm fyrir brot sitt.

Steinunn bendir á að fólk setji sjálft sig í dómara­sæti sem geri ráð fyrir að ein­hver sé af­brota­maður og breiði þeim orð­rómi út. „Ef konur ætla að setjast í dómara­sæti eins og Kristín Ey­steins­dóttir gerði, utan reglna sam­fé­lagsins, stöndum við frammi fyrir mun stærri vanda og ó­fyrir­sjáan­legum skaða.“ Þá muni allt fara til and­skotans sé reglum sam­fé­lagsins ekki hlýtt.

Viður­kenning mikil­vægari en hefnd

Steinunn beinir síðan orðum sínum að einum af höfundi yfir­lýsingarinnar, Önnu Bentínu Her­manns­dóttur. „Þú vinnur með brota­þolum Bentína, og fleiri ykkar sem undir á­lyktunina skrifa, og þið vitið að viður­kenning á því að á þér hafi verið brotið, frá þeim sem braut á þér, er lík­legust til að bæta þann skaða sem of­beldið veldur.“ Það sé nauð­syn­legt fyrir heill þeirra sem í hlut eiga að Atli viður­kenni brot sitt sé hann sekur um það.

„Við höfum tapað áttum ef okkur finnst það nú vera réttur okkar að þegja um of­beldi og leita ekki réttar okkar þar sem það á við sam­kvæmt reglum sam­fé­lagsins um með­ferð saka­mála,“ segir Steinunn.

Hvetur fórnar­lömb til að kæra

„Þeir sem eru full­orðnir og verða fyrir kyn­ferðis­of­beldi bera á­fram á­byrgð á sjálfum sér þrátt fyrir að á þeim hafi verið brotið og það er þeirra að sækja rétt sinn og sam­fé­lagsins að styðja þá og það gerir sam­fé­lagið sannar­lega mun betur nú en það gerði bara fyrir nokkrum árum,“ segir Steinunn og hvetur fórnar­lömb kyn­ferðis­of­beldis til að sýna hug­rekki kæra of­beldið.

„Við getum ekki krafist réttar­fars­legra um­bóta ef við knýjum þær ekki fram og ef við­kvæðið „þessi mál fá aldrei við­unandi af­greiðslu, orð okkar eru alltaf dregin í efa og þess vegna kærum við ekki“ halda á­fram að heyrast.“ Engar auð­veldar flýti­leiðir séu í boði að sögn Steinunnar.

Ekki starfi sínu vaxin

Steinunn á­varpar Önnu Bentínu síðan aftur. „Ef fólk eins og þú og aðrir sem starfa með brota­þolum eruð þeirrar skoðunar að það sé sjálf­sagt að Atla var sagt upp störfum vegna þess að á hann voru bornar að því er virðist al­var­legar sakir án þess að hann fengi upp­gefnar sakar­giftir, er ég ykkur ein­fald­lega ó­sam­mála. Ef ykkur finnst eðli­legt að það sé réttað utan ‘leik­reglna’ sam­fé­lagsins eins og gerðist þegar Atla var sagt upp störfum hef ég veru­legar á­hyggjur af því að þið séuð ekki starfi ykkar vaxin.“

Þórdís Elva vakti athygli á því að Atla voru greiddar hærri miskabætur en þolendum kynferðisofbeldis.
Fréttablaðið/Stefán


Of ungur til að kallast nauðgari

Í yfir­lýsingu kvenanna var ný­legur pistill Steinunnar einnig gagn­rýndur fyrir að kalla Tom Stranger, einn af fáum ger­endum sem hefur viður­kennt að hafa nauðgað, „meintan geranda“ en Steinunn fór hörðum orðum um fórnar­lamb hans, Þór­­dísi Elvu Þor­valds­dóttur, sem hún sagði vera „sjálf­­skipaðan leið­­toga fórnar­lamba.“

„Mér hugnast ekki að kalla Tom Stranger, fyrrum unnusta Þór­dísar Elvu, nauðgara þótt hann gangist við því sjálfur,“ kemur fram í svar­grein Steinunnar í dag. „Þau voru bæði barn­ung þegar þetta gerðist og ég hef sam­úð með þeim báðum, henni 16 ára og honum 18 ára gömlum,“ segir Steinunn og bætir við að það sé flókið að vera ung­lingur.

Alltaf von á að vera vændur um ofbeldi

,,Ungir drengir eiga undir högg að sækja því það er stundum alveg sama hvernig þeir snúa sér í samskiptum við hitt kynið, þeir geta alltaf átt von á að það verði eftir á útskýrt sem ofbeldi vegna þess að orðið ofbeldi er algjörlega gengisfallið og getur nú þýtt nánast hvað sem er: návist, snerting, raddblær, augnaráð og allt rófið til hrottalegrar misbeitingar." Að mati Steinunnar innræti Þórdís hugarfar meðal ungmenna sem myndi gjá milli kynjanna.

,,Stúlkur eru einnig í vanda því að sumar fyrirmyndir, eins og Þórdís Elva, boða að ef þær upplifa eitthvað óþægilegt í samskiptum kynjanna þá skuli það heita ofbeldi og þær eigi heimtingu á að heimurinn skilgreini það líka sem ofbeldi."

Margar konur lýstu kynferðisofbeldi sem þær höfðu upplifað í kjölfar #metoo byltingarinnar.
Fréttablaðið/Getty

Kyndi undir kynja­stríð

Þá segist Steinunn allra helst hafa verið í pistli sínum að gagn­rýna vinnu­að­ferðir og fram­göngu Þór­dísar sem að hennar mati þurfi ekki á vel­þóknun hennar að halda. „Ég fer ekkert ofan af því að mér finnst hún hafa skaðað og skælt um­ræðu um kyn­ferðis­brota­mál á Ís­landi og gert alveg heil­mikið ó­gagn.“

Steinunn tekur dæmi um að Þór­dís hafi ó­um­beðin leitt #met­oo hóp sviðs­lista­kvenna og farið þar mikinn. „Hún leik­stýrði á mjög svo ó­lýð­ræðis­legan hátt fram­vindu af hörku í #met­oo og alls ekki í þökk allra sviðs­lista­kvenna, þó þær því miður vilji fæstar tjá sig um það opin­ber­lega.“

Þór­dís hafi að mati Steinunnar málað ó­raun­sæja mynd af of­beldis­fullum heimi sviðs­lista­fólks þar sem hún stýrði #met­oo hópnum af eigin henti­semi. „Slíkir ein­ræðis­til­burðir lýsa drottnunar­girni á háu stigi og eru mér ekki að skapi. Leið­toga­dýrkun af því tagi sem skapast í kringum Þór­dísi Elvu er stór­vara­söm. Þór­dís kyndir að mínu mati undir stríð, kynja­stríð sem leysir engan vanda en hún getur svo per­sónu­lega hagnast á.“

Glötuð án reglna

Steinunn endar pistil sinn á því að benda á að ekkert hafi á­unnist í bar­áttu fyrir úr­lausnum í kyn­ferðis­brota­málum ef fólk pískri enn í hornum og við­haldi þöggun um glæpi. „Við erum glötuð ef við fylgjum ekki leik­reglum um sann­girni öllum til handa.“