Steinunn Ólína er ómyrk í máli í nýjasta pistli sínum á vef Fréttablaðsins í kvöld. Hún lýsir aðkasti sem Freyja Haraldsdóttir og Atli Rafn Sigurðsson hafa orðið fyrir að undanförnu, en bæði stóðu þau í málaferlum og stóðu uppi sem sigurvegarar í vikunni sem er að líða.

Freyja, aðjúnkt við mennta­vísinda­svið Há­skóla Ís­lands vann í máli gegn Barna­verndar­stofu og Atli Rafn, leikari, hafði betur gegn leik­hús­stjóra Borgar­leik­hússins, Kristínu Ey­steins­dóttur og Leik­fé­lagi Reykja­víkur.

Hæsti­réttur stað­festi dóm Lands­réttar þar sem felldur var úr gildi úr­skurður vel­ferðar­nefndar um að Freyja Haralds­dóttir væri synjuð um­sókn um að taka barn í fóstur.

Segir Steinunn réttarkerfið hafa staðist prófið í heimi þar sem „sjálf­um­gleðin og hatrið geisa og mennskan er á undan­haldi.“

Steinunn gagnrýnir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur harðlega og kallar hana meðal annars „sjálfskipaðan leiðtoga fórnarlamba“. Þá segir hún nýjan skilning á mannréttindum hafa orðið til í kjölfar Metoo byltingarinnar.

Borgarleikhúsi og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra ber að greiða stefnanda, Atla Rafni, 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón króna í málskostnað.

„Ég hlaut bágt fyrir þegar ég lagði til að þær konur sem borið hafa Atla sökum í einka­spjalli við leik­hús­stjórann kærðu hann ef hann hefði brotið af sér. Ég er enn þeirrar skoðunar og jafn­framt þeirrar skoðunar að þær geri öllum fórnar­lömbum kyn­ferðis­of­beldis ó­leik með því að gera það ekki.“

Bætur til fórnar­lamba of­beldis bæti þó alls engan skaða heldur séu að­eins viður­kenning á því að á við­komandi hafi verið brotið.

Steinunn gagnrýndi ummæli Þór­dísar Elvu þegar hún furðaði sig á bótagreiðslum sem dæmdar voru Atla Rafni og sagði þær hærri en nauðgunarbrotaþoli hér á landi hafi nokkurn tíma fengið og sagði þau „staðlausa stafi“ og að „þvælulist (e. manipulation)“ væri aðalfag Þórdísar Elvu.

„Að leggja slíka ofur­á­herslu á (skaðabætur brotaþola) er til marks um skilnings­leysi Þór­dísar Elvu á að­stæðum þeirra sem hafa orðið fyrir kyn­ferðis­of­beldi,“ segir Steinunn.
Fréttablaðið/Stefán

Keppni í ofbeldi

Steinunn áréttar skoðun sína um að þær konur sem hafi ásakað Atla Rafn stigu fram og kærðu hann hefði hann brotið af sér. Segir hún að þær geri öllum fórnar­lömbum kyn­ferðis­of­beldis ó­leik með því að gera það ekki.

„Fyrst heimtum við að heimurinn hætti að þagga niður kyn­ferðis­of­beldi en nú viljum við hafa réttinn til að þagga sjálfar kyn­ferðis­of­beldi í hel og réttinn til að bera menn sökum án þess að þurfa að standa fyrir máli okkar? Það er of­beldi af verstu skúffu eins og dóms­úr­skurður í máli Atla ber vitni um,“ skrifar Steinunn.

Segir hún að bar­áttu­fólk gegn of­beldi sem á­líti það að niður­lægja fólk án dóms og laga full­kom­lega eðli­legt í sam­fé­lagi manna geri lítið annað en keppa í of­beldi.