Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur setið á þingi lengur en allir núverandi þingmenn. Hann tilkynnti í lok október í fyrra að hann hygðist hætta í pólitík og í dag er hans síðasti þingfundur.
Fréttablaðið náði af honum tali á miðjum þingfundi þar sem fram fer umræða um Hálendisþjóðgarðinn og spurði hann hvort til standi að fagna að loknum fundi.
„Ég ætla nú bara að klára daginn og hvíla mig svo vel,“ segir Steingrímur, örlítið hás í símanum. „Mér líður ágætlega en ég náði mér í hálsbólgu í vikunni. Það er að lagast.“

Steingrímur segir þetta heilmikil tímamót þó hann verði áfram forseti fram á haust og hefur áfram ákveðnum skyldum að gegna.
„Þannig þetta eru ekki alveg endalokin en í þeim skilningi er hinn síðasti þingfundadagur. Ég mun eitthvað rifja það upp í mínum lokaorðum í kvöld.“ Segist hann ekki ætla að hafa það væmið.
Steingrímur rekur ferilinn í stuttu máli og segir að sjálfsögðu marga litríka kafla, ómögulegt sé að tína upp úr þeim.
„Bæði hefur maður upplifað mikið sem þingmaður í stjórnarandstöðu og sem ráðherra og forseti Alþingis. Ég hef verið í öllum hlutverkum sem íslensk stjórnmál hafa upp á bjóða, við borðið, undir því og ofan á,“ segir hann og hlær.


Hann minnist erfiðu kaflanna eftir hrunið þar sem voru miklar og strembnar lotur en þegar hann lítur yfir farinn veg standa litríku og skemmtilegu tímarnir efst í huga.



Alþingismenn greiða atkvæði í tveimur lotum í dag og verður svo sennilega þingfrestun.
„Víglínan keyrir áfram af fullu afli og það mæðir mikið á starfsfólki á svona dögum. Þetta er allt saman að hafast og búið að ganga mjög vel. “