Steingrímur J. Sigfússon var harðlega gagnrýndur af stjórnarandstöðunni á þingfundi fyrr í dag. Í liðnum óundirbúnum fyrirspurnum leyfði Steingrímur þingmanni Viðreisnar, Þorsteini Víglundssyni að skipta út ráðherra. Þorsteinn hafði óskað eftir að beina fyrirspurn til umhverfis og auðlindarráðherra en vildi síðan frekar fá að beina spurningu til Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Steingrímur veitti leyfið en sagði eftir að Þorsteinn hafði beint spurningunni til Lilju að slíkt yrði ekki leyft í framtíðinni og játaði að hafa gert mistök. Stjórnarandstaðan sakaði Steingrím um að ritstýra spurningum þeirra. RÚV fjallaði einnig um málið.

Eftir að Lilja Alfreðsdóttir hafði svarað Þorsteini tók Steingrímur til máls. Þar sagði Steingrímur að hér eftir yrði ekki hægt að breyta skráningu í óundirbúinni fyrirspurn þegar þingfundur væri hafinn.

„Í ljósi þess sem kom fram síðar að tilefnið var nýtt til að bera fram fyrirspurn sem þegar hafði verið borin upp og svarað, lítur forseti svo á að hann hafi gert mistök. Þessi fyrirspurnatími er ekki hugsaður þannig að hann breytist í kappræður og menn geti valið sér eftir því hvernig umræðan fram vindur.“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar gagnrýndi Steingrím og kvaðst ekki átta sig á af hverju Steingrímur væri bregðast við með þessum hætti. Slíkt hið sama gerði Þorsteinn Víglundsson. Halldóra Mogensen þingmaður Pírata sagði:

„Þetta er asnalegt og það er óréttlátt að koma svona fram.“

Fleiri þingmenn gagnrýndu Steingrím sem útskýrði ákvörðun sína á þá leið að það hefði runnið upp fyrir honum á meðan fyrirspurn Þorsteins stóð að þetta ætti sér líklega ekki fordæmi. Steingrímur bætti við að hefðin væri sú að fyrirfram væri tilkynnt um ráðherra sem sem væru viðstaddir og skrá hvaða þingmenn myndu spyrja spurninga. Sagði Steingrímur að ef forminu yrði breytt væri hætta á að óundirbúnir fyrirspurnatímar gætu breyst í umræðu um einstök mál og alfarið þá beinst að einum ráðherra. Steingrímur játaði að hafa gert mistök og sagði:

„Ég tek fram að þetta beinist á engan hátt að háttvirtum þingmanni Þorsteini Víglundssyni og hann frekar á hrós skilið fyrir hugkvæmnina að láta sér detta í hug að þetta væri hægt. Hann er eflaust upphafsmaður að því að á þetta reyndi.“