„Ég ætla að byrja á að þrífa bílinn minn því hann var að koma úr tíu daga kosningaferðalagi og dálítið skítugur, greyið. Svo langar mig að rölta annaðhvort á Esjuna eða Úlfarsfellið,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi forseti Alþingis, en hann birtist í Alþingishúsinu í gær til að klára að ganga frá.

Hann var þar til að sækja dót sem hann átti en einnig var Steingrímur að undirbúa greinargerð til tilvonandi forseta og forsætisnefndar. Eins og staðan er núna er Willum Þór Þórsson forseti Alþingis og verður svo þar til þing kemur aftur saman. Nema eitthvað nýtt hafi gerst í talningarmálum í nótt og Brynjar Níelsson rjúki aftur inn á þing. Þá verður hann forseti.

Steingrímur viðurkennir að staðan sem komin er upp sé eitthvað sem er viðbúið. „Við vitum að kerfið er svona og það geta orðið ótrúlegar rúllettur ef eitthvað fer af stað á annað borð. Það er skiljanlegt að menn vilji hafa fullvissu fyrir því að talningin hafi verið rétt þar sem er mjög mjótt á mununum.

Þá er spurning að það sé réttmæt krafa að þar sé endurtalið. Ég ætla ekki að blanda mér í það. Þetta er eitthvað sem þeir sem fara með þessi mál verða að finna út úr og við treystum því að það verði gert,“ segir Steingrímur sem hefur verið á Alþingi síðan 1983 og er einn ástsælasti stjórnmálamaður landsins. Hann ákvað fyrr í vetur að kveðja Alþingi og viðurkennir að það sé ekki hægt að kúpla sig alveg út úr hringiðunni á einni nóttu.

„Ég er mjög ánægður og sáttur og tel mig hafa tekið rétta ákvörðun.

Ég vil skilja vel við og er að ganga frá hlutum sem snúa að því að allt sé lagt í hendur á nýrri forustu þingsins með greinargóðum hætti og svo er ég eins og hver annar í baklandi míns flokks.“

Hann segir næsta verkefni vera heima á Gunnarsstöðum í Þistilfirði þar sem hann er fæddur og uppalinn. Eftir það er framhaldið óákveðið. „Ég er búinn að ráða mig í starf í nóvember á sauðfjárbúi heima á Gunnarsstöðum þar sem bóndinn þarf að fara í aðgerð og ég lít eftir lömbunum á meðan. Annars ætla ég að njóta lífsins og gera eitthvað skemmtilegt næstu vikur og mánuði.“