Við Arnar­nes­strýturnar í Eyja­firði er að finna heim­kynni ein­hvers ó­venju­legasta gælu­dýrs á Ís­landi, og þótt víðar væri leitað. Stein­bíturinn Stefán hefur átt heima þar í rúman ára­tug og þangað heim­sækir kafarinn Er­lendur Boga­son hann reglu­lega, enda telst Stefán vera hluti af fjöl­skyldunni.

„Ég á einn hund og Stefán er svo­lítið eins og hinn hundurinn,“ segir Er­lendur hlæjandi. „Við erum búnir að vera vinir síðan árið 2009.“

Vin­áttan spratt upp eftir að Er­lendur á­kvað að prófa hvort hann gæti fætt stein­bít líkt og hann hafði áður gert við þorsk. „Stein­bítar eru þó alls ekki jafn viljugir og þorskar og það tók nokkrar vikur að fá hann til að koma út úr holunni.“ Að þeirri hindrun lokinni myndaðist ó­vænt sam­band milli stein­bítsins og Er­lends.

„Hann fór að koma á móti mér og ég klappaði honum að­eins og klóraði honum undir hökunni og þá fékk hann mat í staðinn.“ Stein­bíturinn Stefán var fljótt farin að þekkja Er­lend það vel að hann gaf öðrum köfurum lítinn gaum í þau skipti sem Er­lendur kafaði með hóp af fólki. „Hann syndir alltaf beint til mín þar sem hann veit að hann fær bita.“

Kafarinn Erlendur Bogason hefur fengið viðurnefnið steinbítahvíslarinn.
Fréttablaðið/Auðunn

„Það eru til sögur um að menn hafi veitt stein­bít ná­lægt svæðinu og sleppt honum.“

Tóku stein­bít af mat­seðlinum

Þetta at­ferli stein­bítsins vakti bæði at­hygli og furðu og leið ekki á löngu þar til fiski­sagan hafði flogið um allan Eyja­fjörðinn og víðar. Frægð Stefáns varð til þess að sjó­menn forðuðust að veiða stein­bít við Arnar­nes­strýturnar af ótta við að fá Stefán í netið.

„Það eru til sögur um að menn hafi fengið stein­bít ná­lægt svæðinu og sleppt honum,“ segir Er­lendur. Stein­bíturinn Stefán virðist hafa sigrað hjörtu jafn­vel harð­svíruðustu veiði­manna á svæðinu þar sem hann fagnar bráð­lega tví­tugs­af­mæli sínu.

„Eftir að þau sáu myndirnar af mér og Stefáni þá tóku þó stein­bít út af mat­seðlinum."

Það eru þó ekki að­eins heima­menn sem þekkja sögu Stefáns þar sem hann rataði í fréttirnar fyrir nokkrum árum. „Það komu til mín hjón í sumar og þau sögðust borða mikinn fisk en eftir að þau sáu myndirnar af mér og Stefáni þá tóku þó stein­bít út af mat­seðlinum,“ segir Er­lendur brosandi.

Hét fyrst Bob, síðan Stefanía og loks Stefán

Þegar Stefán rataði fyrst í fréttirnar gekk hann þó undir öðru nafni. Árið 2011 var Er­lendur í sam­starfi við haf­fræðinginn Bob Ballard, mannsins sem fann Titanic, þegar hann var að vinna að grein fyrir National Geo­grap­hic. „Bob spurði hvað stein­bíturinn héti en þá hafði hann ekkert nafn svo ég spurði hvort við ættum ekki bara að skíra hann Bob.“

Nafnið passaði þó ekki þar sem Er­lendur stóð í þeirri trú á þessum tíma að Stefán væri kven­fiskur, eða hrygna. Svo fór að hann var skírður í höfuðið á að­stoðar­konu Bob og fékk því nafnið Stefanía.

„Fimm árum seinna kom það síðan í ljós að hún Stefanía mín, sem ég hélt alltaf að væri Stefanía, var bara Stefán,“ segir Er­lendur og hristir hausinn. Enn komi fyrir að Stefán sé kallaður Stefanía en hann virðist lítið kippa sér upp við það.

„Fimm árum seinna kom það síðan í ljós að hún Stefanía mín, sem ég hélt alltaf að væri Stefanía, var bara Stefán.“

Gáfaðasti fiskurinn í sjónum

Fáar rann­sóknir hafa verið gerðar á at­ferli stein­bíta og segir Er­lendur sára­lítið vera vitað um tegundina. „Þegar leitað er að upp­lýsingum um stein­bít koma fáar niður­stöður upp. Flestar rann­sóknir hér á landi eru gerður í 150 metra dýpi á meðan við erum að hitta þá á 20 metra dýpi.“ Er­lendur og teymi hans hefur rann­sakað stein­bíta síðan árið 2016 og gert ó­fáar ó­væntar upp­götvanir.

„Löngu áður en ég byrjaði að stúdera stein­bítinn sagði fiski­fræðingurinn Guð­rún Marteins­dóttir mér að hann væri gáfaðasti fiskurinn í sjónum.“ Á þeim tíma hafi Er­lendur horft efins á fræði­konuna og spurt hvernig greindar­vísi­tölu­próf væri lagt fyrir fiska. „Þá sagði hún mér að stein­bítur er með heila haus­kúpu þannig hann hefur eitt­hvað að verja þarna inni en hinir fiskarnir ekki.“

„Maður skilur varla hvernig þeir þekkja okkur kafarana í sundur þegar við erum í kafara­búningunum með kútana.“

Er­lendur segir klárt mál að stein­bítar séu ekki vit­lausar verur. Eftir að hafa dvalið með litlum hóp stein­bíta við Arnar­nes­strýturnar hafi gáfurnar ekki dulist neinum. „Maður skilur varla hvernig þeir þekkja okkur kafarana í sundur þegar við erum í kafara­búningunum með kútana.“

Erlendur veltir stundum fyrir sér hvort hann hafi þjálfað steinbítana eða þeir hann.
Fréttablaðið/Auðunn

Gjör­ó­lík hegðun milli stein­bíta

Tveir stein­bítar auk Stefáns fá reglu­legar heim­sóknir kafara. „Það sem okkur finnst einna merki­legast er að þessir tveir stein­bítar sem við gefum reglu­lega mat hafi bara lært þessa hegðun, við byrjuðum ekki að gefa þeim,“ segir Er­lendur hugsi. Ekki sé þó ó­hugsandi að Stefán hafi upp­lýst ná­granna sína um hvernig best væri að fara að. „Hann hefur bara sagt þeim hvernig ætti að hegða sér og hvað ætti að gera,“ segir Er­lendur glettinn.

„Það hefur oft verið sagt að ég þjálfi stein­bíta til að koma til mín,“ segir Er­lendur. Hann lætur slíkar full­yrðingar liggja milli hluta. Hann kafar eftir kúf­skeljum, fer með þær í bátinn og kafar svo með þær niður þar sem hann klappar stein­bítnum, brýtur skelina og gefur honum að borða. „Þá vaknar spurningin hvort ég hafi tamið stein­bítinn til að koma eða hann mig,“ segir kafarinn og skellir upp úr. „Ég geri alla vinnuna og þeir fá að borða.“

Mikill munur er á karakterum þeirra stein­bíta sem Er­lendur og teymi hans heim­sækja. „Það er alveg gjör­ó­lík hegðun á milli þessara fiska.“ Stefán sé elstur og á­vallt ró­legur og yfir­vegaður. „Svo eru hinir tveir yngri, annar er svo­lítið eins og hvolpur og hinn gengur undir nafninu Heimskur og það er bara góð á­stæða fyrir því.“

„Hinn gengur undir nafninu Heimskur og það er bara góð á­stæða fyrir því.“

Gamall og tann­laus en minnugur

Fjórði fasta­gestur í matar­gjöf mætir síðan á hverju hausti. „Ég held alltaf að þetta sé seinasta haustið því hann er náttúru­lega orðinn mjög gamall og tann­laus.“ Sá gamli er auð­þekkjan­legur á svörtum bletti á vinstri hlið hans og dvelur hann með köfurunum í um einn og hálfan mánuð áður en hann fer aftur út í ó­vissuna.

„Hann þekkir mig vel og syndir alltaf beint til mín þrátt fyrir að hafa ekki séð mig í tíu mánuði,“ segir Er­lendur. Þar sem stein­bíturinn er tann­laus getur hann ekki brotið neðri helming kúf­skeljarinnar sjálfur. „Þannig að ég þarf að taka vöðvann alveg úr og hreinsa,“ út­skýrir Er­lendur. „Nú er hann farinn og það er spurning hvort maður sjái hann á næsta ári.“

Steinbíturinn Stefán er yfirvegaðasti steinbíturinn í hópnum hjá Arnarnesstrýtunum.
Mynd/Aðsend

Sjö mánaða með­ganga Stefáns

Líf stein­bíta ein­kennist af á­kveðinni endur­tekningu að sögn Er­lends. Hver kyn­þroska stein­bítur eigi sína eigin holu þar sem hann heldi til. „Þessir heppnu eða myndar­legu fá hrygnu inn í holuna sína þegar fer að hausta. Þau parast og búa síðan saman fram fram í septem­ber.“

Þegar hrygningunni er lokið þá fer hrygnan í burtu og karl­fiskurinn, eða hængurinn, er eftir til að passa eggin. „Það gerir hann án þess að borða. Hann bíður bara og það eina sem hann gerir er að vera í holunni og halda eggja­klasanum hreinum.“

Breyting hefur orðið á því hve lengi eggin eru að klekjast úr á síðustu árum. „Árin 2016 og 2017 þá klöktust eggin út hérna um lok janúar og byrjun febrúar en síðustu tvö ár var það hins vegar ekki fyrr en seinni­partinn í mars sem eggin voru að klekjast út,“ lýsir Er­lendur. „Það er tveggja mánaða munur þarna á þriggja ára tíma­bili.“ Á­stæðan sé kólnun sjávar í Eyja­firðinum.

„Vegna þess hve lengi eggin voru að klekjast út þurfti stein­bíturinn Stefán að liggja á sínum eggjum í heila sjö mánuði.“

Hvikaði ekki frá eggjunum

„Vegna þess hve lengi eggin voru að klekjast út þurfti stein­bíturinn Stefán að liggja á sínum eggjum í heila sjö mánuði,“ segir Er­lendur um vin sinn. „Eftir sex mánuði þá fór ég niður með mat handa honum og þá var hann ekkert búinn að borða í allan þann tíma,“ í­trekar Er­lendur. „Ég fór með upp­á­halds­matinn hans og setti við hliðina á honum.“

Stein­bíturinn Stefán var tví­stígandi í fyrstu, enda rann honum blóð til skyldunnar. „Hann færði sig ekki og hvikaði ekki frá eggjunum. Svo var það ekki fyrr en ég setti matinn fyrir framan hann að hann borðaði hann.“

Sælt sam­lífi við rækju

Í sam­lífi við stein­bítinn búa kampa­lampi rækjur. „Þær hreinsa stein­bítinn og fá að búa með honum og eggjunum,“ segir Er­lendur sem hafði ekki heyrt um slíkt fyrr en hann sá það með eigin augum. „Það er ó­trú­legt að sjá rækjurnar hreinsa tennurnar í stein­bítunum af mikilli skyldu­rækni.“

Þegar eggin klekjast út fer stein­bíturinn í um tveggja mánaða ferða­lag. „Svo kemur hann aftur í maí og snýr svo aftur í holuna sína.“ Þeir séu við­loðandi við holuna fram í júlí. „Þá byrja þeir aftur að slást um hrygnurnar. Þetta er svona nokkuð ein­falt líf líkt og hjá öðrum dýrum.“

Tíma­bilið sem Er­lendur fær að klappa Stefáni er frá maí og fram í ágúst eða byrjun septem­ber. „Þá nælir hann sér í hrygnu ef hann er heppinn og eftir hrygningu þá yfir­gefur hann ekkert holuna sína.“

„Það er ó­trú­legt að sjá rækjurnar hreinsa tennurnar í stein­bítunum af mikilli skyldu­rækni.“

Heima­kærari en aðrir fiskar

Ekki er þó gengið að því að vinna hrifningu hrygnu. „í lok júlí og alveg fram í septem­ber fara karlarnir að slást.“ Þessi slags­mál séu ekkert grín. „Sumir hængarnir gefast ekki upp í slags­málum. Þó að einn sé búinn að para sig þá liggur hinn fyrir utan holuna og er ekkert að gefa honum séns á að frjóvga eggin.“

Stein­bítar séu mis á­rá­sa­gjarnir en lítið er vitað um þessa hegðun þeirra. „Við höfum jafn­vel fundið þá dauða eftir þessi slags­mál um hrygnurnar.“ Stein­bíta­lífið sé ekki alltaf tekið út með sældinni

Stein­bítar eru mjög heima­kærir fiskar að mati Er­lends. „Þeir eiga bara sitt heimili og eru bara í sinni holu.“ Þegar farið er í köfunar­ferðir koma fisk­tegundir á borð við þorsk og sand­kola á móti köfurunum. Stein­bítarnir leggjast ekki svo lágt. „Við förum niður til þeirra og stoppum við holurnar. Þá koma þeir út og fá að borða.“

Er­lendur segir best að koma ekki tóm­hentur í heim­sókn. „Maður passar sig að hafa mat á þeim tíma sem fiskarnir eru í ætis­leit. Það er ekkert gaman þegar stein­bíturinn kemur og horfir á mann biðjandi augum og maður hefur ekkert í höndum.“

„Það er ekkert gaman þegar stein­bíturinn kemur og horfir á mann biðjandi augum og maður hefur ekkert í höndum.“

Stefán líkt og aðrir steinbítar er heimakær. Hér er hann í holu sinni.
Mynd/Aðsend

Hústökur tíðkast ekki hjá stein­bítum

Holurnar skipta stein­bíta miklu máli. „Hængarnir eiga sína holu en á hverju ári eru ein­hverjir sem snúa ekki aftur í holuna sína.“ Það taki marga mánuði fyrir annan stein­bít að taka yfir holuna. „Það er ekki gert fyrr en full­víst er að upp­runa­legur eig­andi muni ekki snúa aftur.“ Hústökur tíðkist annars ekki.

Það ein­kenni stein­bíta að þeir vilji ekki raska líf­ríkinu í kringum sig. „Ég hef aldrei séð þá borða neitt í kringum bú­svæðið, Þeir vilja hafa nær­um­hverfið í sinni upp­runa­legu mynd og veiða annars staðar, ekki ó­svipað mann­fólkinu.“

„Þeir vilja hafa nær­um­hverfið í sinni upp­runa­legu mynd og veiða annars staðar, ekki ó­svipað mann­fólkinu.“

Fyrsti gælu­stein­bítur sögunnar

Stein­bíturinn Stefán var lík­lega um sjö ára þegar Er­lendur hitti hann fyrst. „Hann er lík­lega um á­tján ára í dag.“ Elst verði stein­bítar um þrí­tugir en ekki margir ná að vera svo lang­lífir. Er­lendur kveðst ekki vita til þess að fleiri hafa slegið upp vin­skap við stein­bíta. Senni­lega sé Stefán fyrsti gælu­stein­bítur sögunnar.

„Auð­vitað finnst það annars staðar að fiskar og menn eiga í miklum sam­skiptum,“ viður­kennir Er­lendur. „Það sem er ó­líkt í þessu til­viki er að stein­bíturinn er ekki í neinum sam­vistum við okkur stóran hluta ársins. Þeir yfir­gefa svæðið í ein­hverja mánuði og eru síðan mánuðum saman í holunum.“ Ekki sé því stöðugt hægt að minna á sig.

„Þeir fá ekkert frá manni frá septem­ber að apríl en um leið og þeir eru búnir að losna við eggin þá koma þeir á móti okkur og biðja um mat.“ Enn eru nýjar upp­götvanir gerðar á at­ferli stein­bíta við rann­sóknir að sögn Er­lends. „Þannig að það er þó nokkuð um spurningar sem á eftir að svara.“