Fjarskiptagögn sýna að Steinbergur Finnbogason verjandi eins sakborninga í Rauðagerðismálinu, var í samskiptum við aðra sakborninga í málinu bæði fyrir og eftir að hann var skipaður verjandi í málinu. Þeirra á meðal sé karlmaður sem lögreglan grunar að hafi verið á vettvangi í Rauðagerði skömmu fyrir og eftir morðið. Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar um vitnaskyldu Steinbergs.

Vitni í málinu hafa einnig borið um að hafa rætt við Steinberg eftir að morðið var framið og eftir að hann var skipaður verjandi.

Þess er getið í héraðsdómi að Steinbergur hefði sjálfur þurft að gæta að hæfi sínu.

„Þeir sem eru skipaðir verjendur þurfa auk þess sjálfir að gæta að hæfi sínu og tryggja að háttsemi þeirra við verjandastörf sé ekki með þeim hætti að hún gefi tilefni til þess að þeir verði kvaddir til að gefa skýrslu í málinu sem vitni.“

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ákvörðun um vitnaskyldu Steinbergs sé ekki eins viðkvæm þegar litið sé til þess að krafa lögreglu hafi komið fram eftir að skjólstæðingur Steinbergs losnaði úr gæsluvarðhaldi. Í Landsrétti er fallist á það mat lögreglu að nauðsynlegt sé að taka skýrslu af Steinbergi með réttarstöðu vitnis.

Í úrskurði héraðsdóms er farið almennt yfir stöðu rannsóknarinnar á morðinu. Armando Bequiri sem lést fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði um miðjan febrúar hafi verið með áverka eftir níu skotsár. Skotvopnið hefur enn ekki fundist.

Þrír sitja nú í gæsluvarðhaldi, tveir karlmenn og ein kona. Einn þeirra situr nú í fjögurra vikna gæsluvarðhaldi. Um er að ræða albanskan karlmann sem grunaður er um að hafa skotið Armando til bana. Sex eru í farbanni vegna rannsóknarinnar og tólf hafa réttarstöðu sakbornings.

Lögregla telur ljóst að um morðið á Armando hafi verið undirbúið í samverknaði nokkurra sakborninganna og jafnvel með hlutdeild annarra.

Mikið gagnamagn er nú til rannsóknar hjá lögreglu, þar á meðal eru fjarskiptagögn og upptökur úr eftirlitsmyndavélum.