Steinbergur Finnbogason lögmaður segist hafa farið þess á leit við Lögmannafélag Íslands að Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður yrði minnt á lögmannsskyldur sínar.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag sakar Steinbergur Sigrúnu um að skrökva í Facebook færslu sinni. Þar benti Sigrún á að héraðs- og landsréttardómarar í málum Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar nuddara, skjólstæðings Steinbergs sem hefur verið dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að nauðga fimm konum, hefðu tekið fyrir ásakanir Steinbergs í hennar garð og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert væri hæft í þeim.

Sakaði Sigrúnu um að smala saman brotaþolum

Steinbergur sakaði Sigrúnu um að hafa auglýst eftir og smalað saman brotaþolum með þeim tilgangi að höfða hópmálsókn gegn Jóhannesi. Hélt hann því fram að ásakanir kvennanna væru því byggðar á fölskum grunni sem mætti rekja beint eða óbeint til aðkomu og afskipta Sigrúnar, sem var réttargæslumaður kvennanna á rannsóknarstigi.

Steinbergur segir fæsta lögmenn leyfa sér nokkru sinni að fara út fyrir þann ramma að hagræða sannleikanum eða ljúga.

„Á því eru þó því miður undantekningar. Ein þeirra leit dagsins ljós á fésbókarfærslu kollega míns, Sigrúnar Jóhannsdóttur lögmanns, og í kjölfarið á netmiðli DV og þar á eftir Fréttablaðsins. Eflaust var sá fréttaflutningur lögmanninum síst á móti skapi enda féll hann þar í þá freistni að skrökva að blaðamönnum beggja miðla og samsama mig að auki skjólstæðingi mínum í verjendastörfunum,“ skrifar Steinbergur.

Sigrún Jóhannsdóttir réttargæslumaður og lögmaður.
Aðsend mynd.

Dómarar tóku ekki undir með Steinbergi

Ingi Tryggvason, dómari í Héraðsdómi Reykjaness, sagði í dómnum: „Hins vegar er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að viðkomandi réttargæslumaður hafi með einhverjum hætti haft áhrif á það að brotaþoli lagði fram kæru í málinu og borið með þeim hætti sem hún gerið hjá lögreglu.“

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli fjögurra kvenna gegn Jóhannesi, sem Landsréttur staðfesti, komst dómari að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram í málinu sem gæfi tilefni til að ætla að framburður kvennanna hafi verið mótaður af samskiptum Sigrúnar við þær.

„Það eitt að ákærði haldi því fram að [ein kvennanna] og [Sigrún] hafi staðið í makki gegn honum eykur ekki á trúverðugleika framburðar hans um sakarefni máls.Þarf fleira að koma til,“ skrifaði dómari.

„Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að samskipti [konunnar]og [Sigrúnar] dragi ekki úr trúverðugleika framburðar [konunnar] um sakarefni máls.“

Segir málsvörn og vitnisburð staðfesta aðkomu Sigrúnar

Steinbergur segir ekki rétt að Landsréttur og Héraðsdómur hafi vísað ásökunum hans á bug.

„Hið rétta er einfalt. Fyrirliggjandi málsgögn og vitnisburðir staðfesta aðkomu Sigrúnar að smölun á skjólstæðingum, meðal annars uppástungu hennar um auglýsingu eftir brotaþolum undir fölsku nafni og móttöku hennar á mögulegum kærendum. Dómstigin tvö töldu þetta hins vegar ekki skipta máli hvað varðaði sekt eða sýknu umbjóðanda míns. Á því annars vegar og hinu hins vegar, að þau hafi „vísað á bug“ þessum ásökunum mínum er mikill munur,“ skrifar Steinbergur.

„Framganga Sigrúnar á opinberum vettvangi, rangtúlkanir hennar og svig framhjá sannleika málsins, er þess eðlis að ég hef farið þess á leit við Lögmannafélag Íslands að hún verði minnt á þær lögmannsskyldur sem flestir í stéttinni hafa alla daga í hávegum.“