Þriðji og síðasti hluti þingsetningarfundarins sem hófst þriðjudaginn 23. nóvember fer fram á Alþingi í dag, 1. desember og hefst klukkan eitt.

Í dag verður kjörinn nýr forseti Alþingis en Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er talinn ansi líklegur í það embætti.

Varaforsetar verða einnig kjörnir ásamt fastanefndum og alþjóðanefndum. Stjórnarflokkarnir hafa gefið það út að þeir muni fara með formennsku í öllum nefndum að undanskilinni stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar mun stjórnarandstaðan gegna formennsku.

Þá verður dregið í þingsæti en sú hefð hefur skapast hér á landi að þingmenn dragi sæti í stað þess að sitja samkvæmt flokkslínum.

Í kvöld klukkan hálf átta er stefnuræða, Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, á dagskrá.

Eftir það eru umræður um hana og fulltrúar allra flokka taka til máls.