Landspítalinn hyggst láta fjölga legurýmum fyrir áramót, að því er kemur fram í ávarpi sem Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, birti á vef spítalans í dag. Í pistlinum drepur Guðlaug á fundi sem framkvæmdastjórn og forstöðumenn Landspítala héldu á þriðjudaginn með það að markmiði að draga úr álagi á bráðamóttökunni.

Guðlaug segir tilteknar ákvarðanir hafa verið teknar á fundinum auk fjölgunar legurýma, þar á meðal þá að vinna við að endurskoða læknisfræðilega ábyrgð eða tilfærslu ábyrgðar, fyrirkomulag endurkoma til bæklunarlækna, aðgengi að myndgreiningarþjónustu að nóttu og skipulag blóðtöku á legudeildum. Verði þessi verkefni tekin fyrir á öðrum fundi í byrjun nóvember.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala.

Í ávarpinu líkir Guðlaug bráðabirgðastöðu sinni sem forstjóri spítalans við áttatíu daga ferðalag Phileasar Fogg umhverfis hnöttinn í skáldsögu Jules Verne, en áætlað er að nýr forstjóri taki við í byrjun mars 2022.

„Við þurfum eins og Phileas Fogg að veðja á og trúa því staðfastlega að okkur takist ætlunarverkið,“ skrifar Guðlaug. „Til þess þurfum við að nota öll verkfærin og bjargráðin sem við eigum í sameiningu. Keðjan er aðeins eins sterk og veikasti hlekkurinn og því þurfum við öll að standa saman fyrir skjólstæðinga okkar, samstarfsfólk, nemendur og fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu.“