Íslensk kona hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu fyrir að skylda hana til að dvelja á nýja sóttkvíarhótelinu gegn vilja hennar. Lögmaður hennar Ómar R. Valdimarsson staðfestir við Fréttablaðið að hann sé farinn af stað með kröfu til héraðsdóms Reykjavíkur.
Hann undirbýr nú kröfuna og sendir hana til héraðsdóms í kvöld. Hann segir að hún byggi á tveimur þáttum; annars vegar meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og hins vegar svokallaðri lögmætisreglu. Þannig þyki honum og skjólstæðing hans í fyrsta lagi að ríkisvaldið hafi gripið til allt of þungra aðgerða með nýjum reglum við landamærin en einnig að stjórnvöld hafi beinlínis ekki lagaheimild í nýju sóttvarnalögunum fyrir þeim.
Umdeildar reglur
Nýju reglurnar við landamærin tóku gildi í gær samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra. Nú þarf hver sá sem kemur til landsins frá svokölluðum dökkrauðum eða gráum löndum í Evrópu að dvelja á nýju sóttkvíarhóteli í fimm daga á meðan viðkomandi bíður eftir því að fara í aðra sýnatöku.
Aðgerðirnar hafa vakið mikla athygli og sætt nokkurri gagnrýni, til dæmis frá formanni Lögmannafélags Íslands. 21 árs karlalandsliðsteymisins dvelur nú í sóttkvíarhótelinu og hefur verið afar harðyrt í garð stjórnvalda. Liðsmenn þess vilja fá að komast heim til sín og taka sóttkvína út þar.
Margir hafa þá gengið svo langt að líkja aðgerðunum við aðgerðir einræðisríkja á borð við Norður-Kóreu. Ómar R. sló á svipaða strengi þegar Fréttablaðið ræddi við hann: „Ég er að fara af stað með þessa kröfu fyrir konu sem situr föst inni í þessu gúlagi þarna.“ Fangabúðakerfi Sovétríkjanna var kallað „gúlag“.
Ómar R. segir að konan eigi rétt á því samkvæmt stjórnarskránni að málið verði tekið fyrir og fái flýtimeðferð hjá héraðsdómi. Þannig hljóti úrskurður í því að verða ljós á allra næstu dögum.
Málið er það fyrsta sem lætur reyna á ákvæði nýrra sóttvarnarlaga um heimild stjórnvalda til að skylda fólk til að dvelja í farsóttahúsi. Ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því við Fréttablaðið að ný reglugerð ráðherra stangist á við lögin og að íslenska ríkið gæti tapað málinu.
Sérstök málsóknarheimild í sóttvarnalögum
Samkvæmt sóttvarnalögum eins og þeim var breytt í febrúar síðastliðnum er sérstök heimild til að bera frelsissviptingu í sóttvarnaskyni undir héraðsdóm. Í 14. gr. laganna segir meðal annars: „Aðgerðir, sem mælt er fyrir í stjórnvaldsákvörðun samkvæmt lögum þessum og hafa í för með sér sviptingu frelsis í skilningi 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, er heimilt að bera undir héraðsdóm. Slíkar aðgerðir mega aldrei vara lengur en 15 daga í senn.“