Ís­lensk kona hefur á­kveðið að stefna ís­lenska ríkinu fyrir að skylda hana til að dvelja á nýja sótt­kvíar­hótelinu gegn vilja hennar. Lög­maður hennar Ómar R. Valdimars­son stað­festir við Frétta­blaðið að hann sé farinn af stað með kröfu til héraðs­dóms Reykja­víkur.

Hann undir­býr nú kröfuna og sendir hana til héraðsdóms í kvöld. Hann segir að hún byggi á tveimur þáttum; annars vegar meðal­hófs­reglu stjórn­sýslu­réttar og hins vegar svo­kallaðri lög­mætis­reglu. Þannig þyki honum og skjól­stæðing hans í fyrsta lagi að ríkis­valdið hafi gripið til allt of þungra að­gerða með nýjum reglum við landa­mærin en einnig að stjórn­völd hafi bein­línis ekki laga­heimild í nýju sótt­varna­lögunum fyrir þeim.

Umdeildar reglur

Nýju reglurnar við landa­mærin tóku gildi í gær sam­kvæmt reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra. Nú þarf hver sá sem kemur til landsins frá svo­kölluðum dökk­rauðum eða gráum löndum í Evrópu að dvelja á nýju sótt­kvíar­hóteli í fimm daga á meðan við­komandi bíður eftir því að fara í aðra sýna­töku.

Að­gerðirnar hafa vakið mikla at­hygli og sætt nokkurri gagn­rýni, til dæmis frá formanni Lögmannafélags Íslands. 21 árs karla­lands­liðsteymisins dvelur nú í sótt­kvíar­hótelinu og hefur verið afar harð­yrt í garð stjórn­valda. Liðsmenn þess vilja fá að komast heim til sín og taka sótt­kvína út þar.

Margir hafa þá gengið svo langt að líkja að­gerðunum við að­gerðir ein­ræðis­ríkja á borð við Norður-Kóreu. Ómar R. sló á svipaða strengi þegar Frétta­blaðið ræddi við hann: „Ég er að fara af stað með þessa kröfu fyrir konu sem situr föst inni í þessu gúlagi þarna.“ Fanga­búða­kerfi Sovét­ríkjanna var kallað „gúlag“.

Ómar R. segir að konan eigi rétt á því sam­kvæmt stjórnar­skránni að málið verði tekið fyrir og fái flýti­með­ferð hjá héraðs­dómi. Þannig hljóti úr­skurður í því að verða ljós á allra næstu dögum.

Málið er það fyrsta sem lætur reyna á á­kvæði nýrra sótt­varnar­laga um heimild stjórn­valda til að skylda fólk til að dvelja í far­sótta­húsi. Ýmsir þing­menn stjórnarandstöðunnar hafa lýst yfir á­hyggjum sínum af því við Fréttablaðið að ný reglu­gerð ráð­herra stangist á við lögin og að ís­lenska ríkið gæti tapað málinu.

Sérstök málsóknarheimild í sóttvarnalögum

Sam­kvæmt sótt­varna­lögum eins og þeim var breytt í febrúar síðast­liðnum er sér­stök heimild til að bera frelsis­sviptingu í sótt­varna­skyni undir héraðs­dóm. Í 14. gr. laganna segir meðal annars: „Að­gerðir, sem mælt er fyrir í stjórn­valds­á­kvörðun sam­kvæmt lögum þessum og hafa í för með sér sviptingu frelsis í skilningi 1. mgr. 67. gr. stjórnar­skrárinnar, er heimilt að bera undir héraðs­dóm. Slíkar að­gerðir mega aldrei vara lengur en 15 daga í senn.“