Yfir 78 prósent at­kvæða hafa verið talin í norsku þing­kosningunum sem fram fóru í dag og virðist stefna í vinstri stjórn þar í landi, að því er norska ríkis­út­varpið greinir frá.

Verka­manna­flokkurinn skákar Hægri­flokknum og er nú með 26,3 prósent fylgi gegn 20,4 prósentum Hægri­flokksins. Mið­flokkurinn er með 14 prósent að svo stöddu, Fram­fara­flokkurinn 11,6 prósent og Sósíal­ista­flokkurinn með 7,6 prósent. Aðrir flokkar eru í 4-5 prósentum.

Norska ríkis­út­varpið slær því upp að miðað við fyrstu tölur geti Jonas Gahr Støre, for­maður Verka­manna­flokksins, myndað sína drauma­ríkis­stjórn og tekið við af Ernu Sol­berg, nú­verandi for­sætis­ráð­herra Hægri­flokks.

Með því er átt við að Støre geti nú myndað stjórn Verka­manna­flokks, Mið­flokks og Sósíalíska vinstri­flokknum. Saman­lagt eru flokkarnir með 86 þing­sæti af 168. Áður voru flokkarnir í stjórn árin 2005-2013.