Búist er við spennandi kosningum á aðalfundi SÁÁ á þriðjudag en þar verður kjörinn nýr formaður og 16 stjórnarmenn í 48 manna stjórn samtakanna. Tveir hafa boðað framboð til formennsku, Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi formaður og yfirlæknir til áratuga, og Einar Hermannsson, sem sagði sig úr stjórn SÁÁ í vor eftir hatrammar deilur milli meðferðarsviðsins og framkvæmdastjórnar. Núverandi formaður, Arnþór Jónsson, hefur ákveðið að stíga til hliðar eftir aðalfund.

Vill efla grasrótarstarf
og verja faglega meðferð

Frosti Logason útvarpsmaður ákvað að bjóða sig fram til stjórnar eftir að hafa fylgst með átökunum í vor. Hann hefur verið meðlimur í nokkur ár en ekki komið beint að starfinu fyrr.

„Ég fór að hafa áhyggjur af stöðunni þegar ég sá að framkvæmdastjórnin hafði sagt upp fjölda starfsmanna og Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir sagt sínu starfi lausu til að mótmæla því,“ segir Frosti. „Eftir að hafa skoðað þessi mál komst ég að þeirri niðurstöðu að framtíð SÁÁ væri best borgið undir stjórn Einars Hermannssonar.“

Segir hann Einar tala fyrir heilbrigðustu sýninni, það er að efla grasrótarstarf samtakanna og standa vörð um faglega hluta meðferðarstarfsins þannig að framkvæmdastjórnin sé ekki að hlutast til um það.

Nýlega skrifuðu 57 starfsmenn undir yfirlýsingu til stuðnings Einari og gegn framboði Þórarins. Þar á meðal Víðir Sigrúnarson yfirlæknir og Ingunn Hansdóttir yfirsálfræðingur. Frosti segist ekki geta neitað því að óttast um starfsemina ef framboð Þórarins og fylgismanna hans verður ofan á, það er að stór hluti starfsfólksins myndi einfaldlega segja upp.

„Það yrði algjört stórslys ef allt færi á hliðina og það þyrfti að endurráða í allar stöður og þjálfa fólk upp á nýtt,“ segir hann. „Undir stjórn Valgerðar hefur verið mikil starfsánægja og miklu minni starfsmannavelta en á árum áður.“ Segist hann þó vera bjartsýnn á að sigur vinnist á aðalfundi.

Verið að slíta Vog frá SÁÁ

„Ég er búinn að starfa með Þórarni frá upphafi og hann hefur búið til þessa meðferð í raun,“ segir Hendrik Berndsen blómaskreytingamaður, eða Binni í Blómaverkstæðinu. Binni var einn af þeim sem stofnuðu SÁÁ árið 1977 eftir að hafa lært af meðferðarstarfi í Freeport í Bandaríkjunum. Hann býður sig nú fram í 48 manna stjórnina.

Þrátt fyrir yfirlýsingu starfsfólks telur Binni að eina leiðin til að ná sátt innan samtakanna sé að Þórarinn verði kjörinn formaður. Spyr hann sig hvað sé að gerast í starfsmannahópnum. „Það er ekki hægt að lækna okkur fyllibytturnar, ekki frekar en fyrir 40 árum síðan. En það er hægt að kenna okkur leið til að lifa lífinu lifandi þegar við komum út úr meðferð,“ segir hann. „Frá því að ég var 18 til 32 ára var ég búinn að fara 28 sinnum inn á Kleppsspítala, því það var eina meðferðin á sínum tíma. Færustu geðlæknar og sálfræðingar gátu ekki læknað mig þá frekar en í dag. Þess vegna stofnuðum við SÁÁ.“

Telur Binni að þeir sem skrifi gegn núverandi stjórn og framboði Þórarins séu að reyna að slíta spítalann á Vogi frá samtökunum sjálfum. Einnig efast hann um að full heilindi séu að baki öllum 57 undirskriftunum og telur starfsfólk hafa verið beitt þrýstingi.

„Ég veit ekkert hvernig þetta fer. En ef þetta fer á hinn veginn þá er 40 ára starf runnið út í sandinn og eftir nokkur ár verður þetta orðin önnur geðdeild Landspítalans.“