„Núna eru um 13.400 manns búnir að skrá sig sem er nánast sami fjöldi og var búinn að skrá sig á sama tíma í fyrra,“ segir Anna Lilja Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur sem heldur Reykjavíkurmaraþonið á Menningarnótt.

„Við erum að skrá í Laugardalshöllinni milli 14:00 og 19:00 í dag og síðan bjóðum við upp á skráningu í MR í skemmtiskokkið á hlaupdag.“

Venjulega koma milli þúsund og tvö þúsund skráningar dagana fyrir hlaupdag og lokatala liggur því ekki fyrir. Í fyrra voru skráðir þátttakendur alls 14.625 í heildina.

Styrktarupphæðin 10% hærri en á sama tíma í fyrra

Nú þegar hafa safnast rúmar 111 milljónir í hlaupastyrki. „Þetta tikkar ansi hratt upp. Þetta er alveg að detta núna í 110 milljónir og var um 96 milljónir í gærkvöldi um sjöleytið þannig að þetta fer mjög hratt núna. Þetta er um 10 prósentum hærra en á sama tíma í fyrra. Það var metár þegar söfnuðust um 150 milljónir,“ segir Anna Lilja í samtali við Fréttablaðið við vinnslu fréttarinnar en upphæðin hækkar hratt á meðan.

Fjöldi þátttakenda er misjafn eftir vegalengdum milli ára. „En milli fjórtán og fimmtán þúsund skráningar hefur verið heildarfjöldinn síðustu ár svo það er nokkuð jafn fjöldi en áheitin eru alltaf að aukast ár frá ári og fleiri sem velja að hlaupa til góðs,“ segir Anna Lilja.

Rúmlega 5.300 manns safna fyrir 190 góðgerðarfélög

„Nú eru rúmlega 5.300 manns að safna á hlaupastyrkur.is og safna fyrir 190 góðgerðafélög. Við höfum aldrei haft svona marga áður. Það er mjög mikill áhugi fyrir því enda málefnin fjölbreytt, segir Anna Lilja. „Allir finna eitthvað sem stendur hjarta þeirra næst.“

Áheitin renna óskipt til góðgerðafélaganna því Íslandsbanki greiðir allan kostnað sem fellur til vegna söfnunarinnar. Íþróttabandalag Reykjavíkur heldur hlaupið ár hvert og rennur hagnaður af hlaupinu til íþróttabandalagsins.

„Þeir sem vinna fyrir hlaupið eru að vinna í þágu sinna íþróttafélaga. Allir eru að vinna í fjáröflun fyrir sitt félag.“

Dagskrá hlaupadagsins mikla má finna vef Reykjavíkurmaraþonsins.