Háskóla Íslands bárust hátt í 1.800 umsóknir um grunn- eða framhaldsnám fyrir komandi vormisseri og eru þær um það bil 60% fleiri en á sama tíma í fyrra. Metfjöldi stundar nú nám við Háskóla Íslands eða tæplega 15.000 manns. Reikna má með að um 16 þúsund nemendur verði í skólanum á næsta ári.

Skólinn hefur tekið inn nemendur í takmarkaðan hluta námsleiða í grunn- og framhaldsnámi á vormisseri ár hvert, sem hefst í janúar. Umsóknarfresti um grunnnám lauk 30. nóvember síðastliðinn og bárust skólanum alls 617 umsóknir. Það eru um 50% fleiri umsóknir en á sama tíma í fyrra þegar þær voru 414. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Kemur í kjölfar metfjölda umsókna í vor

Framlengdum umsóknarfresti um framhaldsnám lauk 31. október en þó var hægt að sækja um innritun í tilteknar námsleiðir til viðbótarnáms á meistarastigi til 30. nóvember. Nú liggur fyrir að samanlagður fjöldi umsókna á framhaldsstigi er tæplega 1.150 en hann var tæplega 680 í fyrra. Fjölgun umsókna í framhaldsnámi nemur því nærri 70% milli ára og heildarfjölgun umsókna um nám við skólann á vormisseri nærri 60% á milli ára sem fyrr segir. Inni í þessum tölum eru ekki umsóknir um doktorsnám.

Þessi mikli áhugi á námi við Háskóla Íslands kemur í kjölfar metfjölda umsókna sem skólanum barst í vor og skýrist að líkindum af áhrifum kórónaveirunnar á íslenskt samfélag og atvinnulíf.

„Af þessari miklu fjölgun umsókna sést hversu mikilvæg stofnun Háskóli Íslands er í íslensku samfélagi. Skólinn býður upp á nám sem svarar kalli tímans. Við tökum fagnandi á móti nýjum nemum en minnum stjórnvöld jafnframt á mikilvægi þess að fjármagna þessa fjölgun. Við Háskóla Íslands höfum við gæði starfsins að leiðarljósi og til að viðhalda gæðum er nauðsynlegt að starfsemin sé fjármögnuð,“ er haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, í tilkynningu.