Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að það stefni í að leita þurfi til dómsstóla til að skera úr um 8,7 milljarða kröfu borgarinnar á ríkið. Ár er liðið frá því krafan var sett fram en hún snýr að meintu vangoldnu framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem snýr að rekstri grunnskóla og framlaga til nýbúafræðslu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, sagði á ársfundi Jöfnunarsjóðsins í gær að krafan væri fráleit. Um sé að ræða óskiljanlega aðför af hálfu borgarinnar. Hafi hann átt von á því að krafan yrði dregin til baka, þá sé kröfunni í raun ekki beint að ríkissjóði heldur öllum öðrum sveitarfélögum í landinu. „Ríkissjóður borgar ekki kröfur sem verða dæmdar á ríkissjóð vegna Jöfnunarsjóðs, það verður Jöfnunarsjóður að gera sjálfur. Við sjáum dæmi þess í fyrirliggjandi ársreikningi sjóðsins, en þar er bókfærð skuld sjóðsins við ríkissjóð vegna dóms Hæstaréttar,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu á fundinum.

Dagur segir í samtali við RÚV að það sé mjög ósanngjarnt að Reykjavíkurborg fái ekki framlag vegna nemenda af erlendum uppruna, öll önnur sveitarfélög fái 130 þúsund krónur fyrir hvern nemanda. Hann segir að það stefni í að málið verði leyst fyrir dómstólum.

„Þá höfum við fá úrræði önnur heldur en að skera úr um lögfræðilegt vafamál fyrir dómstól. Það er kannski allt í lagi ef að er deilt um hluti sem lúta að lögum þá eru dómstólar auðvitað til þess. Þannig að verður þá bara svo að vera, þótt hitt hefði sannarlega verið betra.”