Kjörsókn hefur verið með lægra móti það sem af er orðið af seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi í dag. Klukkan fimm að staðartíma höfðu 63,23 % franskra kjósenda greitt atkvæði, sem er tveimur prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrri kosningaumferðinni fyrir tveimur vikum. Samkvæmt mati sem Ipsos-Sopra Steria vann fyrir Le Parisien ætti kjörsókn undir lok dagsins að verða um 72%, sem væri lægsta kjörsókn í annarri umferð forsetakosninga í Frakklandi frá árinu 1969.

Marine Le Pen gengur út úr kjörklefanum.
Mynd/EPA

Lág kjörsókn kann að endurspegla bæði áhugaleysi á kosningunum og óánægju margra kjósenda með báða frambjóðendurna sem kosið er um. Valið stendur á milli sitjandi forsetans Emmanuels Macron, sem hlaut um 28% atkvæða í fyrri umferðinni, og Marine Le Pen, sem hlaut um 23%. Þetta eru sömu frambjóðendur og kosið var á milli í síðustu forsetakosningum árið 2017.

Macron bauð sig fram árið 2017 sem frjálslyndur miðjumaður og ESB-sinni, en hann þykir hafa hneigst lengra til hægri eftir að hann tók við embætti. Sér í lagi varð það honum til óvinsælda meðal vinstrisinna snemma á forsetatíð hans þegar hann afnam auðlegðarskatt og setti síðar skatt á eldsneyti. Þetta varð ein kveikjan að mótmælum gulvestunga á árunum 2018 og 2019.

Að sumu leyti þykir efnahagur Frakklands hafa staðið heimsfaraldurinn vel af sér og atvinnuleysi mælist nú mjög lágt í landinu. Aftur á móti hefur mikillar óánægju gætt með lækkandi kaupmátt og hækkandi framfærslukostnað í landinu. Le Pen hefur lagt mikla áherslu á þessi málefni og tókst þannig að vinna sér stuðning sumra vinstrisinnaðra kjósenda þrátt fyrir að flokkur hennar, Þjóðfylkingin, sé talin öfgahægriflokkur.

Macron hefur sér í lagi gagnrýnt Le Pen fyrir vinahót hennar við Vladímír Pútín Rússlandsforseta í gegnum tíðina. Meðal annars hefur hann beint athygli að því að Þjóðfylkingin hafi þegið lán upp á margar milljónir evra frá rússneskum bönkum í ríkiseign og segir þetta sýna fram á að Le Pen sé fjárhagslega háð Pútín. Le Pen hefur oft lýst yfir aðdáun sinni á Pútín og árið 2014 sagði hún að innlimun Rússa á Krímskaga hafi verið réttmæt. Eftir að Pútín hóf innrásina í Úkraínu fyrr á þessu ári hefur hún hins vegar breytt nokkuð um tón og segir Pútín hafa farið yfir strikið.