„Mikil er á­byrgð þeirra sem hafa leyft mis­réttinu að aukast síðustu ár og ára­tugi þannig að hag­sældin í okkar ríka landi hefur ekki skilað sér til allra. Þeirra er á­byrgðin á því að nú stefnir í hörðustu átök á vinnu­markaði í ára­tugi,“ segir Drífa Snæ­dal, for­seti Al­þýðu­sam­bands Ís­lands, í viku­legum pistli sem hún skrifar og sendur var á fjöl­miðla. 

Hún segir rétt að deilurnar séu vissu­lega á milli vinnandi fólks og at­vinnu­rek­enda. Hins vegar megi ekki gera lítið úr hlut ríkisins.

„Stjórn­völd hafa tækið í höndunum til að jafna kjör og tryggja vel­ferð,“ skrifar Drífa og furðar sig á því að skatt­kerfið hafi fengið að þróast með þeim hætti að hinir ríkari fái skatta­lækkanir á meðan skatt­byrðin eykst hjá hinum tekju­lægstu.

„Það var því ekkert nema eðli­legt að verka­lýðs­hreyfingin gæfi stjórn­völdum tæki­færi til að af­stýra á­tökum með því að laga skatt­kerfið. En hvað gerðist? Skatta­lækkun á alla, þar með talið banka­stjórana sem hafa fengið ríf­legar launa­hækkanir undan­farið, svo ekki sé minnst á kjörnu full­trúana sem kjara­ráð hefur verið svo rausnar­legt við,“ bætir hún við og segir niður­stöðuna von­brigði.

Hún gerði við­ræðuslit verka­lýðs­fé­laganna fjögurra í gær að um­tals­efni og segir ljóst að vinnandi fólk muni þurfa að beita sér af fullum þunga á komandi dögum og vikum.

„Tími sann­girni er runninn upp, vinnandi fólk er til­búið að sækja það sem því ber; lífs­gæði, vel­ferð og rétt­látt kaup fyrir sína vinnu,“ skrifar Drífa að lokum.