Adam Modzelewski, fyrrverandi eiginmaður konu sem ræddi um meintar ofsóknir hans í þætti Kastljóss, höfðar nú mál gegn Helga Seljan Jóhannssyni og RÚV.

Kamila Modzelewska var meðal kvenna sem ræddu við Kastljós um að lifa í stöðugum ótta við fyrrverandi maka sína. Hún sagðist hafa í þrjú ár sætt ónæði, hótunum og skemmdarverkum. Í tvígang hafi Adam sætt nálgunarbanni og hún jafnoft flúið heimili sitt.

Kastljós birti myndband sem var tekið á heilsugæslunni í Mosfellsbæ, skömmu eftir að nálgunarbann á Adam rann út þar sem hann segist óska þess að amma barnsins deyi.

Lögreglan var gagnrýnd fyrir að tryggja ekki nægilega vel öryggi Kamilu þegar lögreglan neitaði lengi vel að leggja nálgunarbann á manninn. Eftir umfjöllun Kastljóss gerði lögreglan ráðstafanir um að tryggja Kamilu aukna vernd og sögðu í samtali við RÚV að mál hennar yrði tekið upp og skoðað aftur frá grunni.

Krefst ómerkingar á tíu ummælum

Viðtalið birtist á RÚV árið 2015 og fjórum árum síðar höfðaði Adam mál og krafðist ómerkingar á tíu ummælum sem birtust í þættinum.

Ummælin voru ýmist höfð eftir Helga, Kamilu eða lögmanni hennar. Þá var einnig krafist miskabóta. Þetta staðfestir lögmaður Helga Seljan í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Aðalmeðferð í máli Adams gegn Helga Seljan og RÚV fer fram í héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn 14. september.

Hér fyrir neðan má sjá þáttinn í heild sinni.