„Notkun á fjarfundabúnaði hjá borginni hefur aukist um ellefu þúsund prósent. Ég tek stundum tíu fjarfundi á dag þannig þetta geta verið ansi langir og lýjandi dagar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem situr einn í fundarherbergi í ráðhúsinu og ræðir við blaðamann á enn einum fjarfundinum. „Fjarfundir hafa leyst margt en hafa líka sína galla. Allavega fylgir þeim alveg sérstök tegund af hausverk í lok langra daga.“

COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á alla starfsemi Reykjavíkurborgar eins og raunar allt samfélagið. „Borgin hefur nánast þurft að endurskipuleggja alla sína þjónustu. Við gleymum því stundum að þetta er níu þúsund manna vinnustaður sem þjónustar tugi þúsunda heimila í hverri einustu viku og hverjum einasta degi. Við höfum verið á neyðarstigi að undanförnu og þá skiptir ótrúlega miklu máli að halda þjónustunni órofinni,“ segir Dagur.

Borgin hefur nánast þurft að endurskipuleggja alla sína þjónustu. Við gleymum því stundum að þetta er níu þúsund manna vinnustaður sem þjónustar tugi þúsunda heimila í hverri einustu viku og hverjum einasta degi.

Hann segir að þrátt fyrir að verkefnin séu mörg og dagarnir langir þá geti hann ekki lýst því hvað það fylli hann miklu stolti að finna hvað allir séu tilbúnir að leggjast á eitt. „Almennt starfsfólk í framlínunni og yfirstjórn hafa sýnt ótrúlega snerpu og aðlögunarhæfni við þessar aðstæður. Þó maður hafi farið í gegnum ýmislegt er ekkert sem getur alveg undirbúið, hvorki mig né aðra, fyrir nákvæmlega þetta. Við erum í rauninni að upplifa alveg einstakt ástand.“

Unglingarnir allt í einu heima

Sjálfur segir Dagur að það hafi gengið furðuvel að aðlaga heimilislífið að breyttum aðstæðum. Eiginkona Dags er Arna Dögg Einarsdóttir læknir og eiga þau fjögur börn sem öll eru á grunnskólaaldri.

„Ég bý að ótrúlega sterku baklandi á heimilinu. Eiginkona mín er líka í framlínunni en hún er sérfræðingur á líknardeildinni sem er auðvitað gríðarlega viðkvæm starfsemi sem þarf að passa upp á á öllum tímum en líka þessum. Það hafa auðvitað aldeilis verið breytingar hjá krökkunum en þau taka þessu af æðruleysi. Ein helsta breytingin á heimilinu er að unglingarnir eru allt í einu heima. Þau taka þessu af stóískri ró þannig við erum ekki alveg orðin brjáluð hvert á öðru ennþá. Það hjálpar kannski að við hjónin erum á köflum að vinna langa daga þannig við erum ekki alveg yfir þeim.“

Stefndi á smitsjúkdómana

Eins og flestir vita er Dagur læknismenntaður en færri vita kannski að hugur hans leitaði í framhaldsnám í smitsjúkdómum. „Ég held að enginn borgarstjóri í heiminum hafi verið búinn undir að stýra borg við þessar aðstæður. En áður en ég leiddist út í pólitík á sínum tíma var ég á leiðinni í framhaldsnám í smitsjúkdómum vegna áhuga á farsóttum. Ég var búinn að taka meistarapróf í mannréttindalögum með áherslu á sóttvarnir. Þannig sá ég fyrir mér rannsókna- og læknisferil á þessu sviði sem ég yfirgaf með nokkrum trega.“

Ég þarf stundum að klípa mig og hugsa hvort ég sé að lifa alheimsfaraldur sem maður lá yfir sem áhugaverðri sagnfræði á meðan ég var ennþá í læknasloppnum.

Meðal fyrrum kennara Dags eru Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Haraldur Briem, forveri hans í starfi, og Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum við Læknadeild Háskólans. „Þetta er fólk sem ég hef litið upp til áratugum saman og kveikti í mér þennan áhuga. Nú eru þau algjörlega í framlínunni. Ég þarf stundum að klípa mig og hugsa hvort ég sé að lifa alheimsfaraldur sem maður lá yfir sem áhugaverðri sagnfræði á meðan ég var ennþá í læknasloppnum.“

Sjúkdómnum haldið niðri

Fyrir tæpum tveimur árum greindist Dagur með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm og þurfti hann að fara í veikindaleyfi um tíma. „Þetta var mjög þungt fyrst og þá datt ég alveg út. Óvissan var kannski verst. En ég var bæði mjög heppinn að fá greiningu fljótt og fara í meðferð sem virkaði fyrir mig. Það er ekki sjálfgefið þegar maður er með ónæmis- eða gigtarsjúkdóma. Þannig hef ég getað komist af sumum lyfjum sem ég var á en ég sprauta mig ennþá með tveimur mismunandi lyfjum. Það heldur sjúkdómnum niðri en ég þarf að passa álag. Stundum hef ég líkt þessu við það að vera úti að hlaupa með teygju í bakinu. Ef ég reyni að fara of geyst þá togar gigtin í mig en ég slæst alveg við hana. Þetta er samt ekki verra en það að ég veit bara af þessu og læri á þetta.“

En ertu í áhættuhópi fyrir COVID-19 smiti vegna veikindanna?

„Já. Ég er á ónæmisbælandi lyfjum og fæ flensueinkenni einu sinni í viku, sólarhringinn eftir að ég sprauta mig. Þessar vikurnar er ég auðvitað alltaf með það á hreinu að ég sé kominn með COVID-19. Þessi lyf eru ekki hæst á listanum yfir áhættuhópa þótt þetta falli undir þá skilgreiningu. Ráðleggingar frá gigtlæknum eru að hætta ekki á lyfjunum en passa sig eins og aðrir í áhættuhópum. En eftir þessa reynslu að vera með þennan sjúkdóm og fara í gegnum þung veikindi get ég við þessar aðstæður auðveldlega sett mig í spor fólks sem hefur áhyggjur vegna undirliggjandi sjúkdóma.“

Um leið og þetta kennir manni að passa sig verði maður á einhvern furðulegan hátt líka æðrulaus. „Á einhverjum tímapunkti getur það komið upp hjá okkur öllum að við smitumst. Þá þarf auðvitað bara að taka því sem að hendi ber og auðvitað fer allskonar í gegnum hugann hjá fólki. Ég hugsa að það hafi mörgum fleirum en mér brugðið að sjá að forsætisráðherra Breta sem er 55 ára væri kominn á gjörgæslu.“

Dagur getur haldið gigtarsjúkdómnum niðri með lyfjagjöf.
Fréttablaðið/Anton Brink

Samfélagið að taka þetta alvarlega

Samkomubann hefur nú verið í gildi á Íslandi frá miðjum mars og mun það standa til 4. maí hið minnsta. Dagur viðurkennir að það sé skrýtin tilfinning að ganga um götur borgarinnar þessa dagana.

En það liggur við að maður fái sting í hjartað því maður er orðinn svo vanur því að það sé mannlíf á hverju götuhorni og hverfin séu full af krökkum og æfingum.

„Við erum að gera rétt í sóttvörnum. Þetta er það sem virkar. En það liggur við að maður fái sting í hjartað því maður er orðinn svo vanur því að það sé mannlíf á hverju götuhorni og hverfin séu full af krökkum og æfingum. Skóla- og frístundastarf hefur gjörbreyst og mannlífið dregið sig í hlé en um leið þá segir það okkur hvað samfélagið tekur þessu alvarlega. Við förum eftir fyrirmælum og erum rosalega einbeitt í því að fara í gegnum þetta saman. Það sem við þurfum að muna er að þetta snýst ekki bara um okkur hvert og eitt heldur um að grípa til aðgerða sem hægja á útbreiðslu veirunnar og ver viðkvæmasta hópinn í samfélaginu.“

Dagur segir að heilbrigðisstarfsfólkið okkar sé að standa sig frábærlega í sínum framlínustörfum. Hlutverk þeirra sem skipuleggja þjónustu borgarinnar og íbúa sé að tryggja að það sem gert sé að álagið verði ekki of mikið á heilbrigðiskerfið.

„Mig langar að nefna eitt dæmi sem ég er ekki viss um að fólk átti sig á. Við hjá borginni og hér á Íslandi vorum á undan að ýmsu leyti varðandi viðbrögð. Neyðarstjórn borgarinnar og velferðarsvið tóku til dæmis þá ákvörðun að loka í raun öllu félagsstarfi eldri borgara og það var sett heimsóknarbann á öldrunarstofnunum. Þetta var gert um leið og það komu leiðbeiningar frá landlækni um viðkvæma hópa en áður en samkomubannið kvað á um svona hluti. Þremur vikum seinna upp á dag var verið að taka sambærilegar ákvarðanir í Svíþjóð. Þá kom í fréttum að yfir þriðjungur allra öldrunarstofnana í Stokkhólmi væri með útbreiddar sýkingar. Þetta hefur enn ekki gerst hjá okkur en auðvitað höfum við allan tímann gert ráð fyrir að sú staða gæti komið upp og myndi líklega koma upp. En fyrir hvern dag sem við frestum því erum við að létta á heilbrigðiskerfinu.“

Áhersla á viðkvæmustu hópana

Þar að auki sé sérstök áhersla lögð á að passa upp á viðkvæmu hópana í borginni. Þannig segist Dagur ekki vita um margar aðrar borgir sem hafi leigt viðbótarhúsnæði til að tryggja tveggja metra mörk hjá þeim sem búa við heimilisleysi og þurfi að leita á náðir gistiskýla.

„Við höfum líka verið að vinna með starfsfólki okkar í búsetuþjónustunni og búsetukjörnunum sem þjóna fötluðu fólki. Þetta er í mínum huga hluti af því að vera alvöru velferðarsamfélag. Þegar svona dynur á vitum við að þeir sem eru á jaðrinum og standa höllustum fæti verða útsettastir fyrir áhrifunum. Þessir hópar eru líka fyrstir til að missa vinnuna og síðastir til að fá hana aftur þegar atvinnulífið réttir úr kútnum. Þess vegna er þetta risapróf sem fyrir okkur er lagt. Bæði hvernig við tökum á skipulagi þjónustunnar í sóttvarnaástandinu en líka hvernig við vinnum úr því þegar við komumst á eðlilegri stað.“

Nú ríkir mikil óvissa um ferðamannasumarið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni?

„Já, því er ekki að neita. Það er mjög umhugsunarvert fyrir okkur öll því ferðaþjónustan er svo stór vinnuveitandi og margir sem byggja afkomu sína og áætlanir fram í tímann á því að Reykjavík sé blómstrand ferðamannaborg og Ísland blómstrandi ferðamannaland. Við erum að skoða mismunandi sviðsmyndir um það hvernig þetta geti þróast. Við teljum bæði ábyrgt og skynsamlegt að undirbúa okkur fyrir það að erlendir ferðamenn verði ekki byrjaðir að koma hér af neinum krafti í sumar. Þá þurfum við bara að skipuleggja okkur miðað við að við verðum ferðamenn í eigin borg og eigin landi.“

Dagur segir að Reykjavík verði hrein, falleg og blómleg í sumar en líka ótrúlega skemmtileg heim að sækja. „Ég held við finnum öll þörf fyrir að sumarið 2020 verði hlýtt, ástríkt og fullt af vináttu, viðburðum, mannlífi, listum og menningu. Helst auðvitað í góðu veðri en við plönum líka fyrir íslenskt rigningasumar. Við reynum líka að hafa gaman þá. Þá værum við líka að styðja við hundruð rekstraraðila sem eru bara með allt stopp núna í samkomubanninu.“

Borgin taki á sig höggið

Efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins eru þegar orðin gríðarleg um heim allan og sér enn ekki fyrir endann á niðursveiflunni.

En hvernig metur Dagur fjárhagslega stöðu borgarinnar og burði hennar til að takast á við þessa risastóru áskorun?

„Við höfum verið að greina þetta frá fyrsta degi og búum að því að ekki bara ég heldur ýmsir hér í stjórnkerfinu hafa reynslu af því að bregðast við hruni, miklu atvinnuleysi og fjárhagserfiðleikum.“

Meðal annars hefur verið stuðst við nýlega greiningu úr Harvard Business Review þar sem farið var yfir áhrif farsótta í gegnum tíðina á hagkerfi. „Þar horfum við á að þetta gæti orðið snöggt högg og svo kæmi kröftug viðspyrna á þremur til sex mánuðum. Það er V-sviðsmyndin okkar. Svo er langdregnari ferill sem tæki níu til tólf mánuði. Við köllum hana U-sviðsmyndina. Og síðan í raun bara viðvarandi langtímaáhrif sem við höfum kallað L-sviðsmyndina. Fyrir þetta erum við að búa okkur og sýnist afdráttarlaust að það sé skynsamlegt að reyna fleyta hagkerfinu, heimilunum og kaupmætti fólks í gegnum þetta tímabil.“

Borgin er ekki mjög skuldsett og á mjög öflug fyrirtæki og býsna sterka tekjustofna þannig lagað þó grunnreksturinn sé í járnum. Þannig getur borgin tekið á sig höggið og reynt að milda það á fólk og fyrirtæki.

Það sé ekki skynsamlegt fyrir borgina að draga sig til baka, hvorki með niðurskurði né frestun fjárfestinga. „Við þurfum þvert á móti að halda sjó og auka heldur fjárfestingar jafnvel þótt það verði gert að töluverðu leyti með lántökum. Annars verður þetta eftirspurnarfall sem er svo áberandi núna í verslun og þjónustu fljótt að dreifast í aðrar atvinnugreinar. Þess vegna erum við að leggja á ráðin með að nota fjárhagslegan styrk borgarinnar. Borgin er ekki mjög skuldsett og á mjög öflug fyrirtæki og býsna sterka tekjustofna þannig lagað þó grunnreksturinn sé í járnum. Þannig getur borgin tekið á sig höggið og reynt að milda það á fólk og fyrirtæki. Það ríkir auðvitað óvissa um margt og við verðum að vera viðbúin því þegar á líður að þurfa að endurskoða aðgerðaplanið. En ég er sannfærður um að við getum þetta en það verður erfitt og ef ég væri forsætis- eða fjármálaráðherra þá myndi ég telja verulega innspýtingu til sveitarfélaga eitt af því sem skynsamlegast væri að gera í stöðunni.“

Borgarráð kynnti fyrir rúmum tveimur vikum fyrstu aðgerðir borgarinnar í efnahagsmálum vegna COVID-19 faraldursins. Athygli vakti að bæði meiri- og minnihlutinn kynntu aðgerðirnar sem voru samþykktar þverpólitískt.

„Borgin býr auðvitað að mjög samhentum meirihluta borgarstjórnar. Ég var hins vegar líka mjög ánægður með minnihlutann í þessu vegna þess að hann þarf auðvitað líka að vera tilbúinn að gera málamiðlanir. En ég held líka að allir í samfélaginu finni styrkinn í því að fólk stígur svona samstíga fram. Jafnvel hópur eins og þessi sem er nú ekki beinlínis þekktur fyrir að vera sammála eða láta gott rifrildi framhjá sér fara.“

Dagur segir að veturinn hafi verið ótrúlegur og erfiður.
Fréttablaðið/Anton Brink

Erfiður vetur

Dagur viðurkennir að veturinn hafi verið erfiður í pólitíkinni í borginni. „Þetta er búinn að vera alveg ótrúlegur vetur. Einn sólarhringinn vorum við að vinna eftir fjórum mismunandi viðbragðsáætlunum almannavarna. Við vorum á óvissustigi út af eldsumbrotum á Reykjanesi, á óvissustigi út af COVID-19, við vorum á neyðarstigi út af verkföllum og á rauðri veðurviðvörun. Það bölvuðu margir janúar og febrúar sem tóku ansi mikið á en við erum nánast farin að sakna þessara mánaða núna.“

Það er ekkert sem er erfiðara heldur en að starfsfólkið þitt sé í verkfalli. Það var mjög erfitt en um leið held ég að þar hafi náðst farsæl niðurstaða og góðir samningar.

Hvað með verkföll starfsfólks Eflingar hjá borginni?

„Það er ekkert sem er erfiðara heldur en að starfsfólkið þitt sé í verkfalli. Það var mjög erfitt en um leið held ég að þar hafi náðst farsæl niðurstaða og góðir samningar. Við fylgdum stefnu okkar um að stytta vinnuvikuna, hækka lægstu laun og sérstaklega laun kvennastétta. En í raun hefur maður ekki haft mikið svigrúm til að dvelja við neitt í þessu. Það hefur bara hvert stórverkefnið rekið annað í allan vetur.“

Samfylkingin hefur verið að mælast ágætlega á landsvísu undanafarna mánuði og virðist vera að festa sig í sessi sem næststærsti flokkurinn. Þrátt fyrir það virðast raddir um að Dagur hyggi á innkomu í landsmálin seint ætla að þagna.

„Ég hef aldrei ljáð máls á því og hef helgað mig borginni. Þessi umræða hefur oft komið upp áður og þetta kjörtímabil er bara hálfnað og alþingiskosningar verða áður en því lýkur þannig að það er ekkert fararsnið á mér. Þvert á móti er ég nú uppteknari af því að við erum með risastórt verkefni hérna í fanginu sem ég ætla mér og allir félagar mínir í meirihlutanum að klára með sóma. Önnur umræða verður bara að bíða.“

Hins vegar telur Dagur að margt þurfi að ræða varðandi samfélagsgerðina þegar við komumst út úr mesta storminum. „Þetta ástand er að sýna fram á styrkleika norrænu velferðarsamfélaganna. Þar eru samþætt heilbrigðiskerfi með yfirsýn þar sem lögð er áhersla á lýðheilsu og sóttvarnir. En þessi kerfi þurfa að vera vel fjármögnuð og við þurfum að fá einhverja sátt um það að atvinnulífið, þegar það kemst aftur á fætur, taki betur þátt í því. Deilum um að útgerðin greiði eðlilegan arð af auðlindinni inn í sameiginlega sjóði þarf að linna. Atvinnulíf, ekki síður en launafólk, á að borga hluta af hagnaði af fjármagnstekjum í sameiginlega sjóði. Þannig getum við verið með vel fjármagnað velferðarkerfi og menntakerfi og fáum enn ríkari sátt um þetta norræna jafnaðarsamfélag sem ég held að þegar í harðbakkann slær allir Íslendingar finni og skynji að er rétta svarið. Ég hugsa að þegar þessi faraldur verður gerður upp verði þetta einn af stóru lærdómunum sem við getum dregið.“

Engin skíði um páskana

Dagur mun eins og aðrir landsmenn eyða páskunum heima með fjölskyldunni. „Við ætluðum reyndar að fara á Siglufjörð á skíði með vinafólki en það hefur verið sett á hilluna. Það er reyndar vont með skíðaferðir að það er erfitt að fresta þeim um nokkra mánuði, það gilda eiginlega árin þar. En í staðinn þá stefnir í svona heimapáska og við höfum verið að viða að okkur nýjum spilum. Við Arna munum bara reyna að vera óvenjulega skemmtileg,“ segir Dagur hlæjandi.

Hann segir að krakkarnir séu duglegir við að vera í samskiptum við vini sína í gegnum alls konar tæki og búnað. „Við erum líka búin að halda fyrsta matarboðið í gegnum fjarfundabúnað. Það var mjög sérstakt en við gáfum engan afslátt af því að fara í sparifötin. Þessar nýju aðstæður kenna manni að reyna eitthvað nýtt og svo er auðvitað að ýmsu að hyggja hérna í ráðhúsinu. Ég mæti hérna til vinnu í gegnum bílakjallarann og fer inn í mína sóttvarnagirðingu sem er búið að koma fyrir hérna á hæðinni hjá mér. Ég verð örugglega eitthvað hér líka. Ætli það sé ekki ágætt fyrir alla heima að fá smá frið?“