Áætlanir margra landsmanna sem ætluðu sér á útihátíð um verslunarmannahelgina eru í uppnámi eftir að samkomutakmarkanir voru hertar. Öllum úti­hátíðum hefur verið aflýst eða frestað og fjöldatakmarkanir eru á tjaldsvæðum landsins.

En hvað tekur fólk þá til bragðs? Blaðamaður og ljósmyndari Fréttablaðsins hittu fólk á förnum vegi og spurðu hvernig verja ætti verslunarmannahelginni, sem segja má að hafi verið aflýst í hefðbubndinni mynd annað árið í röð.

Gabríela Helgudóttir ver helginni með átta mánaða syni sínum. „Við ætlum að hafa það rólegt í góða veðrinu. Pabbi hans er erlendis og við verðum bara tvö í bænum.“
„Nei, ekkert plan, við eigum ekkert líf, mæðginin,“ segja Birna Blöndal og Kári Týr.
Sirrý og Birna segjast aðspurðar ekki hafa átt miða á Þjóðhátíð. „Nei, við getum orðið fullar hvar sem er,“ segja þær. Önnur þeirra ætlar norður í Ásbyrgi um helgina en hin þarf að vera í bænum á laugardaginn vegna vinnu.
„Við erum með lítið barn og ætlum upp í sveit með fjölskyldunni,“ segja Svandís og Haukur. „Við ætlum annað hvort í Vík í Mýrdal eða Ástungu rétt hjá Árnesi, eða bara bæði.“
„Við förum tvenn hjón að gista á hótelinu á Flúðum, njóta þess að vera til og spila golf, fá gott að drekka og borða. Vonandi verður svona gott veður áfram.“