Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) hefur ákveðið að stefna Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf., fyrir félagsdóm. Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, upplýsti á dögunum að Kristján Loftsson hefði við hvalvertíðar meinað starfsmönnum sínum að vera í VLFA og beint þeim í Stéttarfélag Vesturlands. Nokkuð sem margir starfsmanna voru ekki reiðubúnir að verða við.

ASÍ og fleiri hafa gagnrýnt þetta sem grófa hefndaraðgerð af hálfu Kristjáns þar sem Hvalur hafi skömmu áður beðið lægri hlut gegn VLFA fyrir dómi vegna brota á ráðningar- og kjarasamningi.

Kristján hefur vísað þessu á bug í samtali við Morgunblaðið en Vilhjálmur bjóst við að stefnan yrði klár örðu hvoru megin við helgi með þeim orðum að félagið léti ekki vaða yfir félagsmenn sína á skítugum skónum. – smj