Þingfesting fer fram í Félagsdómi í dag í máli Alþýðusambands Íslands fyrir hönd Eflingar stéttarfélags sem höfðar mál fyrir hönd Ólafar Helgu Adolfsdóttur, hlaðkonu hjá Icelandair á Reykjavíkurflugvelli.

Stefna verður formlega birt bæði Icelandair og Samtökum atvinnulífsins.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er samkvæmt heimildum Fréttablaðsins nafngreindur sem ábyrgðaraðili í stefnunni. Efling segir að Halldór Benjamín hafi stutt uppsögn Ólafar og sé virkur gerandi í málinu. Halldór hefur ekki tjáð sig um uppsögnina, ekki frekar en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Ólöfu var sagt upp í sumar á sama tíma og hún gegndi trúnaðarmennsku fyrir aðra hlaðmenn á Reykjavíkurflugvelli. Icelandair segir vafa leika á að Ólöf hafi verið trúnaðarmaður á þeim tíma sem henni var sagt upp.