Votlendissjóður stefnir að því að binda 25 þúsund tonn kolefnis í ár með endurheimt votlendis. Sjóðurinn er ekki rekinn í gróðaskyni og er framtak einstaklinga sem vilja bregðast við lotslagsvánni sem vofir yfir heiminum. Fyrirtækjum er boðið upp á að kolefnisjafna sig í gegnum sjóðinn og hafa mörg stór fyrirtæki á borð við Bónus og Skeljung stigið þetta skref.

Fréttablaðið ræddi í dag við Eyþór Eðvaldsson, stjórnarformann Votlendissjóðs, um starfsemi sjóðsins sem felst í endurheimt votlendis, hvernig binda megi kolefni með því einu að fylla upp í skurði og framlag sjóðsins til loftslagsmála á Íslandi.

Einföld leið til kolefnisjöfnunar

„Við seljum svokölluð vottonn, sem er sem sagt eitt tonn af kolefni sem losnar við framræslu mýra, og notum peninginn til að stöðva losunina. Það er gert með endurheimt votlendis. Við fyllum upp í þessa skurði sem losunin kemur úr,“ segir Eyþór.

„Þannig að þetta er sáraeinfalt. Fólk og fyrirtæki geta með mjög einföldu móti lagt sitt af mörkum. Til dæmis bjóðum við fólki að kolefnisjafna flugið sitt. Ef þú flýgur til Evrópu miðum við við 5.000 krónur til að binda kolefni sem samsvarar því sem þú eyðir en 10.000 ef þú ert að fljúga til Ameríku. Það eru þessi einstaklingsframlög sem hafa verið að aukast mjög mikið núna undanfarið.“

Háfleyg markmið

Markmið starfseminnar eru háfleyg en í ár er fyrsta starfsár sjóðsins. „Við erum á okkar fyrsta ári núna og nú er þetta að skella á. Júlí er fuglamánuður, fuglarnir eru að koma upp og þá er bannað að endurheimta, þannig að strax og júlí klárast hefst starfsemin af fullum krafti.“

„Þá fara jarðýturnar og gröfurnar af stað og við stefnum að því að ljúka árinu með því að binda að minnsta kosti 25 þúsund tonn.“ Þá segist Eyþór ekki muna hvað það sé nákvæmlega mikil endurheimt í hekturum talið en miðað sé við um tuttugu tonna losun á hvern hektara. Grófir útreikningar gefa því að sjóðurinn endurheimti votlendi á um 1.250 hektara landsvæði í ár.

Til samanburðar má þess geta að losun upp á tuttugu tonn samsvarar losun 10-11 nýrra dísilbíla yfir eitt ár.

En er raunhæft að á næstu tíu til fimmtán árum takist að endurheimta bróðurpart votlendisins?

„Já, það er bara algjörlega raunhæft en það skiptir máli að loka þessu sem fyrst. Þetta er svo svakalega mikið magn sem losnar þarna,“ heldur Eyþór áfram en samkvæmt nýjustu rannsóknum stafar 61% losunar kolefnis á Íslandi einmitt af þessum vanda. Það er því til mikils að vinna.

„Þegar okkar vinnu er lokið held ég að það sé raunhæft að taka þessi 61% niður um svona 40 prósentustig.“

Samfélagsleg ábyrgð

„Við höfum fundið fyrir mikilli velvild frá fyrirtækjum. Stóru verktakafyrirtækin eru mörg að ganga fram fyrir skjöldu. Svo finnum við líka að landeigendur eru allir að taka við sér, sérstaklega þeir sem eiga stórar jarðir,“ segir Eyþór. Votlendissjóður tekur þannig á sig að endurheimta votlendi landeigenda þeim að kostnaðarlausu.

61% losunar kolefnis á Íslandi kemur frá framsæstu landi.

„Svo geta verktakar sem eiga gröfu líka lagt sitt af mörkum og fengið úthlutað svæði hjá okkur til að endurheimta,“ heldur Eyþór áfram og staðfestir að slíkir verktakar geti fengið eitthvað greitt frá sjóðnum fyrir vinnuna. Algengt sé þó að verktakar og stór verktakafyrirtæki vinni vinnuna frítt. Þannig virðast margir áhugasamir um að leggja hönd á plóg til að bæta stöðu landsins í loftslagsmálum.

„Menn gera þetta bara af samfélagslegri ábyrgð því þeir vita að þetta þarf að gerast. Svo er gaman að finna að þessi stórfyrirtæki séu að finna til ábyrgðar og vilja standa skil af eigin losun.“

„Með þessu erum við að sjá stór skref í loftslagsbaráttu Íslendinga en miðað við alvarleika málsins er þetta að ganga allt of hægt,“ segir Eyþór að lokum og hvetur alla til að leggja sitt af mörkum í loftslagsbaráttunni.