Stjórnvöld kynntu í gær tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands fyrir 1. júlí. Áætlunin miðar við þróun bólusetninga og í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.
Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní
Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar að minnsta kosti til 1. júní og þannig hefur upptöku litakóðunarkerfisins sem átti að taka í gildi næstu mánaðamót verið frestað.
Þá kemur fram að þau sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli.
Þá munu frá og með 1. júní gilda vægari kröfur um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.
Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður meðal annars stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.