Í nýrri húsnæðis­áætlun Reykjavíkur kemur fram að 16 þúsund íbúðir verði byggðar í borginni næsta áratuginn.

Í október voru 2.541 byggingarhæf lóð í borginni og gera borgaryfirvöld ráð fyrir að á hverjum tíma verði lóðir fyrir á bilinu 1.500-3.000 íbúðir byggingarhæfar.

Á fyrstu níu mánuðum ársins komu 773 nýjar íbúðir inn á markaðinn, þar af 372 af svokölluðu hagkvæmu húsnæði eða á vegum húsnæðisfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Í lok september voru 2.484 íbúðir í byggingu í Reykjavík og samkvæmt áætlunum gæti heildarfjöldi nýrra íbúða á árinu orðið um 1.200. Þetta yrði fjórða árið í röð sem fjölgun íbúða væri yfir þúsund og í frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að aldrei hafi fleiri nýjar íbúðir komið á markaðinn í Reykjavík en undanfarin ár.