„Það er mjög mikilvægt að það ríki samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Við fáum betri og öflugri fjölmiðla ef það er virk og góð samkeppni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem kynnti í gær tillögur til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.

Meðal tillagnanna er endurgreiðsla ritstjórnarkostnaðar hjá prent- og ljósvakamiðlum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stefnt er að því að frumvarp þess efnis verði lagt fram eftir áramót og að fyrstu endurgreiðslurnar komi til framkvæmda vegna rekstrarársins 2019.

„Þetta eru tillögur sem hafa verið í vinnslu í mennta- og menningarmálaráðuneytinu síðustu átján mánuði. Við höfum unnið þetta með fjölmiðlanefnd og lagt mikla áherslu á alþjóðlegan samanburð. Við vildum skoða hvað væri að gerast annars staðar og hvernig það væri að ganga upp.“

Lilja segir að fjölmiðlar gegni mjög mikilvægu hlutverki, bæði við miðlun upplýsinga í lýðræðissamfélagi og fyrir íslenska tungu. „Ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin, þá er umhverfi einkarekinna fjölmiðla hér annað og þessar aðgerðir miða að því að jafna leikinn.“

Umsvif RÚV á auglýsingamarkaði verða einnig minnkuð. Þar er til skoðunar að banna kostun dagskrárliða og að lækka hámarksfjölda auglýsingamínútna á klukkustund úr átta í sex. Lilja segir að til standi að bæta RÚV upp það tekjutap. „Við stefnum að því. RÚV hefur verið að fá auknar fjárveitingar og við stefnum áfram að því að hafa öflugt RÚV.“

Aðgerðir til að styrkja íslenska tungu

Auk tillagna um stuðning við einkarekna fjölmiðla kynnti ráðherra tillögur sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu.

Meðal aðgerða er stuðningur við útgáfu bóka á íslensku en í stað niðurfellingar virðisaukaskatts verður fjórðungur beins kostnaðar endurgreiddur. Verður árlegur stuðningur um 400 milljónir frá og með næsta ári.

Þá verða 2,2 milljarðar króna settir í sérstaka verkáætlun sem ber heitið „Máltækni fyrir íslensku 2018-2022“. Markmiðið er að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi og rafrænum samskiptum.

Þingsályktunartillaga í 22 liðum verður lögð fram á Alþingi í haust. Markmið tillögunnar er að efla íslenskukennslu, auka framboð á menningarlegu efni á íslensku og stuðla að vitundarvakningu.