Við­bragð á gossvæðinu gekk á­gæt­lega í dag, sam­kvæmt stöðu­skýrslu Sam­hæfingar­stöðvar Al­manna­varna. Lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum lokaði fyrir að­gang að svæðinu frá kl. 05.00 á sunnu­dags­morgni vegna veðurs en fjölmargir lögðu engu að síður leið sína að gosinu í dag.

Stefnt er að opnun kl. 10 í fyrra­málið, þriðju­dag, ef veður leyfir. Veður­spá gerir ráð fyrir tölu­verðri úr­komu og vindi fram til há­degis á morgun.

„Kort af göngu­leiðum þar sem hættu­svæði er merkt inn á­samt hrauninu frá því 2021 hefur verið gefið út. Það er Grinda­víkur­bær sem er að láta vinna þetta kort, það er verk­fræði­stofan Efla sem gerir kortið. Kortið sem var gefið út sl. föstu­dag er bráða­birgða­kort, verið er að vinna í að gera það enn betra,“ segir í til­kynningu frá Sam­hæfinga­stöðinni.

Tölu­vert var um að fólk hefði ætlað á svæðið þrátt fyrir lokun og nokkur hundruð manns hafa farið inn á svæðið í dag. Unnið er að því að koma skýrum upp­lýsingum til ferða­manna um að­stæður og nauð­syn­legan búnað fyrir ferðina.

Fjölmargir hunsuðu tilmæli Almannavarna og fóru að gosinu í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Unnið er að þéttari merkingum á göngu­leiðum sem einnig er verið að laga og gera greið­færari. Verið er að bæta og laga neyðar­leiðir við­bragðs­aðila að svæðinu í heild. Veður­stofa Ís­lands mun fjölga gas­mælum í kringum gos­stöðvarnar þegar veður leyfir og gas­dreifingar­spá er að finna á heima­síðu þeirra. Veður­stöð er einnig til­búin til upp­setningar á svæðinu þegar færi gefst. Fylgst er náið með breytingum á yfir­borði í ná­grenni gos­stöðvanna, þ.m.t. á sprungum sem mynduðust í jarð­skjálfta­hrinunni í að­draganda gossins,“ segir í stöðuskýrslu.

Björgunar­sveita­fólk mannar vöktun á svæðinu til að tryggja öryggi við gos­stöðvarnar og unnið er að lang­tíma­á­ætlun á þessari vöktun. Unnið er að því í sam­starfi við Um­hverfis­stofnun og yfir­völd að tryggja að­komu og störf land­varða á gos­stöðvunum.

Ferðamenn fóru ekki að ráðleggingum almannavarna og þurfti björgunarsveitin að sækja tíu manns sem villtust í þokunni.
Fréttablaðið/Anton Brink

Björgunar­sveitir voru kallaðar út rétt fyrir klukkan fjögur í dag þar sem tveir hópar með um 10 manns í villtust á gossvæðinu en svarta­þoka var á svæðinu í dag. Hóparnir fundust síðan um kvöld­matar­leytið en um er­lenda ferða­menn var að ræða.

„Fólkið hafði verið á göngu þarna, það var hund­­leiðin­­legt veður og svarta þoka og þau höfðu villst þarna á leiðinni, fyrsti hópurinn sem hringdi á neyðar­línuna hafði villst á leiðinni til baka,“ sagði Davíð Már Bjarna­­son, upp­­­lýsinga­full­­trúi Lands­bjargar, í sam­tali við Frétta­blaðið í fyrr kvöld.

Engin slys urðu á fólki en fólk var orðið kalt og blautt og ramm­villt, að sögn Davíðs.

„Það var björgunar­sveitar­­fólk sem mannaði þarna ein­hverjar lokanir og það fóru nokkrir hópar þarna um gossvæðið að skanna það til þess að leita sé allan grun að það séu ekki fleiri þarna í vand­ræðum og reyna að koma í veg fyrir að það verði eitt­hvað frekara bras þarna í kvöld,“ segir Davíð.

Hann segir fólkið hafa gert það rétta í stöðunni, að hringja í neyðar­línuna. „Fólkið gerði alla veganna það rétta, það hringdi og óskaði eftir hjálp í staðinn fyrir að vaða þarna um og lenda í ein­hverjum frekari ó­­­göngum,“ segir hann.