Um­hverfis- og skipu­lags­svið Reykja­víkur­borgar hefur lagt fram til­lögu um að kjarni Kvosarinnar verði að göngu­götu­svæði og að að­liggjandi götum verði breytt í vist­götur.

Á vist­götum og á jaðri göngu­götu­svæðisins myndi al­mennum bíla­stæðum fækka veru­lega en gert yrði ráð fyrir stæðum fyrir hreyfi­hamlaða og vöru­af­greiðslu.

Bíla­stæðum fækkar

Til­lagan er í sam­ræmi við á­herslur gildandi aðal­skipu­lags Reykja­víkur. Þar kemur fram að unnið yrði mark­visst að endur­hönnun al­mennings­rýma og götu­rýma í borginni í þeim til­gangi að efla mann­líf og bæta borgar­brag.

Á­ætlunin verður inn­leidd í á­föngum en stórum hluti svæðisins hefur nú þegar verið breytt í göngu­götur eða vist­götur. Til að byrja með verður fram­tíðar-göngu­götum breytt í vist­götur og al­mennum bíla­stæðum fækkað veru­lega. Stæðum fyrir hreyfi­hamlaða og til vöru­af­greiðslu verður hins vegar fjölgað.

Aukið öryggi

„Það er yfir­lýst mark­mið Reykja­víkur­borgar að enginn slasist al­var­lega eða látist í um­ferðar­slysum innan borgarinnar,“ segir í frétta­til­kynningu borgarinnar.

„Því miður er einna mest sam­þjöppun slysa á gangandi veg­far­endum í borginni í mið­borginni og þrátt fyrir að um­ferðar­hraði sé al­mennt lágur í mið­borginni eru af­leiðingar hluta um­ferðar­slysanna þar sem ekið er á gangandi vegafar­enda al­var­legar.“

Núverandi umferðaskipulag Kvosarinnar.
Mynd/Reykjavíkurborg
Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs um breytingar á umferðarskipulagi.
Mynd/Reykjavíkurborg
Framtíðarsýn Reykjavíkurborgar á svæðinu.
Mynd/Reykjavíkurborg