Móðir frá Georgíu, Marika, og barn hennar, Tomas, sem er fætt hér á landi, hafa nú verið handtekinn og stefnt er á að vísa þeim úr landi á næstunni en þetta staðfestir Elínborg Harpa Önundardóttir, fulltrúi hjá No Borders Iceland, í samtali við Fréttablaðið. Samkvæmt útlendingalögum má ekki vísa þeim úr landi sem hafa haft fasta búsetu á Íslandi frá fæðingu.

Að sögn Elínborgar mætti lögreglan án fyrirvara fyrir utan flóttamannabúðir fyrir fjölskyldur í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, þar sem hjónin Ivane Broladze og Marika Chukhua dvöldust, klukkan tvö í dag en faðirinn, Ivane, var þá ekki heima. Samkvæmt lögmanni fjölskyldunnar er búið að aðskilja móður og barn og er Barnaverndarnefnd á svæðinu. „Það virðist sem svo að það eigi að halda áfram með þessa brottvísun bara í nótt jafnvel þó að faðirinn finnist ekki,“ segir Elínborg.

Marika og Tomas í kvöldfréttum Stöðvar 2 síðastliðinn ágúst.
Mynd/Skjáskot

Ekki búið að vinna mál barnsins að fullu

„Það stendur í verklagi um þegar vísa á fjölskyldum úr landi að þau eiga að fá allt að tveggja vikna fyrirvara, til þess að geta undirbúið sig og fjölskylduna og annað slíkt,“ segir Elínborg en hún segir ekkert slíkt hafa legið fyrir þar sem ekki var búið að vinna mál barnsins að fullu.

„Lögmaðurinn er á lögreglustöðinni í Hafnarfirði þar sem þau eru í gæsluvarðhaldi og hann er að reyna að fá þau laus,“ segir Elínborg að lokum.

Barn þeirra grafið í Gufuneskirkjugarði

Greint var frá stöðu Ivane og Mariku í kvöldfréttum Stöðvar 2 í byrjun ágúst en þau sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi sumarið 2017. Marika var þá ólétt af fyrsta barni hjónanna en barnið fæddist andvana á tuttugustu viku meðgöngu og var hann grafinn í Gufuneskirkjugarði.

Útlendingastofnun synjaði beiðni þeirra um dvalarleyfi í febrúar árið 2018 og var þeim í kjölfarið vísað aftur til Georgíu. Þau komu síðan aftur til landsins í nóvember sama ár en beiðni þeirra var aftur synjað. Marika var þá aftur ólétt og ákveðið var að fresta brottvísuninni þar til barnið væri fætt en Tomas fæddist í janúar á þessu ári.

Leiðrétting 5. desember klukkan 11:32: Barn og móðir voru ekki aðskilin á lögreglustöð. Um er að ræða misskilning hjá lögmanni. Þau voru handtekin saman.