Ríkis­stjórn Ís­lands hefur sam­þykkt til­lögu Guð­mundar Inga Guð­brands­sonar, um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra, um að grípa til að­gerða sem nauð­syn­legar eru til að stöðva olíu­leka úr skips­flakinu El Grill­o sem liggur á botni Seyðis­fjarðar.

Þetta kemur fram á vef Stjórnar­ráðsins þar sem segir að ráðist verði í að­gerðirnar á næstu vikum og er á­ætlaður kostnaður vegna þeirra um 38 milljónir króna.

El Grill­o er 10 þúsund lesta breskt olíu­birgða­skip sem sökkt var árið 1944 í árás þýskra flug­véla í Seyðis­firði. Árið 1952 var olíu dælt úr skipinu og svo aftur árið 2001 þegar rúm 60 tonn af hreinni olíu náðust úr því. Út­reikningar þá bentu til þess að 10-15 tonn af olíu væru enn þá eftir í flakinu.

Síðan hefur reynslan sýnt að olía lekur úr flakinu þegar sjór hlýnar á sumrin. Land­helgis­gæslan fór í könnunar­leið­angur í októ­ber síðast­liðnum en þá kom í ljós að tölu­verður olíu­leki var úr opi við olíu­tanka skipsins vegna tæringar. Því er mikil­vægt að bregðast við lekanum hið fyrsta til að fyrir­byggja nei­kvæð um­hverfis­á­hrif í firðinum.

Þær að­gerðir sem nú verður ráðist í felast í því að loka opinu með því að steypa yfir það. Þá verður loka komið fyrir í steypunni sem nýta mætti síðar ef til þess kemur að dæla þurfi úr tankinum. Stefnt er að því að ráðast í að­gerðirnar nú á vor­mánuðum áður en sjór hlýnar og verður verk­efnið á höndum Land­helgis­gæslunnar.