Eld­gos hófst í Mera­dölum á mið­viku­daginn. Fjöl­margir hafa lagt leið sína að gosinu þrátt fyrir til­mæli lög­reglu, sem segir mikil­­vægt að hafa í huga að gossvæðið sé hættu­­legt. Þar geti að­stæður breyst skyndi­­­lega.

Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna ‘78:

Ætlar þú að skoða eldgosið í Meradölum?

Já, ég ætla að fara að skoða nýja gosið um leið og færi gefst.

Skoðaðir þú síðasta gos?

Já, ég fór þrisvar og skoðaði gosið. Skemmtilegast fannst mér að sjá þróunina á gosinu. Ég fór tveimur dögum eftir að það byrjaði fyrst og næst þegar ég kom var dalurinn sem ég stóð í horfinn. Það er einstakt að fá tækifæri til að sjá landið mótast fyrir augunum á manni.

Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna ‘78.
Mynd/Aðsend

Fannar Arnarsson, leikari:

Ætlar þú að skoða eldgosið í Meradölum?

Já, ég stefni klárlega á það að skoða eldgosið í Meradölum.

Skoðaðir þú síðasta gos?

Ég sá ekki gosið síðast, sem var algjört klúður af minni hálfu, en ég einfaldlega frestaði því þangað til það var of seint. Kannski var það einhver efi í undirmeðvitundinni af því ég gerði tvær heiðarlegar tilraunir til að skoða gosið í Fimmvörðuhálsi á sínum tíma sem fóru hvorugar vel!

Fannar Arnarsson, leikari.
Mynd/Aðsend

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta:

Ætlar þú að skoða eldgosið í Meradölum?

Já, ég geri ráð fyrir að kíkja á gosið. Er reyndar á leið út á flugvöll núna en ef það gýs enn þegar ég kem heim frá útlöndum þá skelli ég mér ef allar aðstæður eru öruggar.

Skoðaðir þú síðasta gos?

Já, ég fór í kvöldgöngu þegar gaus síðast og það var mjög tilkomumikið að sjá eldgosið í myrkrinu.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.

Davíð Berndsen, tónlistarmaður:

Ætlar þú að skoða eldgosið í Meradölum?

Eftir að fór að gjósa brunaði ég út í hljóðfærabúð og keypti mér kassagítar svo ég geti spilað vel valin lög fyrir gesti og gangandi í Meradölum! Ég mun líklegast tjalda þar og spila og syngja mjög hátt þar næstu vikurnar!

Skoðaðir þú síðasta gos?

Ég missti af síðasta gosi því ég var búsettur erlendis þannig nú er ég mjög peppaður fyrir þessu öllu saman!

Davíð Berndsen, tónlistarmaður.

Björn Leó Brynjarsson. handritshöfundur og leikskáld:

Ætlar þú að skoða eldgosið í Meradölum?

Já, ég ætla tvímælalaust að kíkja. En ekki gera neitt heimskulegt af því að það er mjög hallærislegt að deyja á Reykjanesinu.

Skoðaðir þú síðasta gos?

Ég fór þrisvar sinnum að síðasta gosi og sá það í öllum fösum. Það var eiginlega trúarleg upplifun fyrir mig. Mér fannst það smá eins og að horfa á dauðann koma upp úr jörðinni, svona ótrúlega fjandsamlegt en fallegt á sama tíma. Ægifagurt. Sýndi manni skýrt hvað lífið á jörðinni er þrautseigt að hafa náð að þróast hér en einnig viðkvæmt fyrir eyðileggingu.

Björn Leó Brynjarsson. handritshöfundur og leikskáld.
Mynd/Aðsend