„Það er bara staðreynd með fíkn, eins og með aðra sjúkdóma, að það er óheppilegt að vera með þá yfir sumartímann,“ segir Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, um hefðbundna sumarlokun á meðferðarheimili samtakanna sem nú stendur yfir.

SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, vonast til þess að geta haldið meðferðarheimilinu Vík, þar sem áfengissjúklingar fara í 28 daga framhaldsmeðferð eftir afeitrun, opnu allt árið um kring á árinu 2022. Venjan hefur um árabil verið sú að Vík sé lokað yfir sumarið og því ekki boðið upp á meðferðina.

Einar segir að sumarlokanirnar séu ill nauðsyn vegna fjármagnsskorts samtakanna. Þrennt komi til sem kunni að gera mögulegt að reka heimilið allt árið um kring á næsta ári. „Við vonumst til þess að fá aukið fjármagn frá ríkinu. Við gerum líka ráð fyrir að þjónustugjaldið frá skjólstæðingum okkar hækki lítillega og að við förum í sérstakt fjáröflunarátak.“

Milljóna krafa frá Sjúkratryggingum

SÁÁ voru nýlega krafin um endurgreiðslu upp á 134 milljónir króna af Sjúkratryggingum Íslands vegna lokana í kringum Covid-faraldurinn. Þá sé ekki samningur í gildi um símtöl í skjólstæðinga auk þess að deilur eru um ungmennaþjónustuna. Einar segir málið á misskilningi byggt og vonast hann til að krafan verði felld niður. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif sú krafa kann að hafa á von samtakanna um aukið ríkisfjármagn.

Framhaldsmeðferð eftir afeitrun á Vogi stendur alla jafna ekki til boða á sumrin.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég er heppin“

Ingunn Bylgja Einarsdóttir, skjólstæðingur SÁÁ, er ómyrk í máli um það sem hún telur skaðsemi sumarlokananna. „Sumarið er oft mjög erfiður tími, sérstaklega fyrir alkóhólista. Það ætti aldrei að vera lokað þarna,“ segir Ingunn.

Segist hún þekkja fleiri en einn sem hafi nánast umsvifalaust byrjað aftur í neyslu eftir afeitrunarmeðferðina á Vogi þar sem þeim stóð ekki til boða að fara í eftirmeðferð á Vík. Jafnframt tengir Ingunn lokanirnar við dauða konu sem sótti meðferð með henni. Sú kona byrjaði aftur í neyslu, fannst í hjartastoppi fyrir utan neyðarskýlið Konukot og lést síðan. „Ég er heppin. Ég bý í þannig umhverfi að það er vel haldið utan um mig,“ segir Ingunn.

Hún segir að þörf sé á eftirmeðferð á borð við þá í Vík allt árið. „Vogur er sjúkrahús en ekki meðferðarstöð,“ segir hún. „Það er á Vík sem fólk fær úrræði, ráðgjöf og er komið inn í alls kyns batterí. Núna er fólk bara sett út á götu eftir afvötnun, en það er alls ekki nóg. Það gengur ekki að segja fólki eins og mér bara að halda sér þurru eftir tíu daga afvötnun á Vogi. Ef það nægði væri Vík ekki til.“